- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Tíu marka sigur í upphafsleik millriðlanna

Janus Daði Smárason lék vel í sóknarleik íslenska landsliðsins í gærkvöld og skoraði einnig fimm mörk. Mynd/EPA
- Auglýsing -


Íslenska landsliðið hóf þátttöku í millriðlakeppni heimsmeistaramótsins í handknattleik karla með tíu marka sigri á sprækum leikmönnum landsliðs Grænhöfðaeyja í Scandinavium íþróttahöllinni í Gautaborg í kvöld, 40:30. Fimm mörkum munaði á liðunum í hálfleik, 18:13, Íslandi í vil.
Íslenska liðið var með yfirhöndina allan leikinn.


Grænhöfðeyingar voru aldrei mikil ógn. Þeim tókst að minnka muninn í tvö mörk í fyrri hálfleik, 9:7. Í síðari hálfleik sveiflaðist forskotið frá fjórum og upp í sjö mörk þangað til í lokin að vindur var úr mótherjunum og leikmenn íslenska liðsins luku leik með tíu marka sigri þar sem 13 leikmenn skiptu mörkunum 40 á milli sín.

Sigvaldi Björn Guðjónsson var markahæstur með sex mörk, öll í síðari hálfleik. Mynd/EPA


Varnarleikurinn var ekki eins og best verður á kosið að þessu sinni. Líta ber þó til þess að Grænhöfðeyingar léku nánast frá upphafi með sjö menn í sókn sem vissulega gerði varnarleik íslenska liðsins erfiðari. Þó hefði mátt gera betur. Aðalatriðið er að menn verði samstilltir þegar á hólminn verður komið á föstudaginn. Vegna þess hversu gisin vörnin var á tíðum var markvarslan ekki góð.


Á annan tug marka skoraði íslenska liðið í autt mark Grænhöfðeyinga.

Viggó Kristjánsson lék meiri hluta leiksins og skoraði fimm mörk, fjögur úr vítaköstum. Mynd/EPA


Allir sextán leikmenn fengu að spreyta sig að þessu sinn sem svo sannarlega var gott og ekki vanþörf að spara kraftana fyrir átökin við Svía eftir tvo sólarhringa. Hákon Daði Styrmisson skoraði síðasta mark leiksins og sitt fyrsta mark fyrir landsliðið á stórmóti. Kristján Örn Kristjánsson, Donni, fékk nokkrar mínútur undir lokin. Hann kom inn af ákefð en hefði að ósekju mátt fá lengri tíma.


Björgvin Páll Gústavsson stóð í markinu í síðari hálfleik í sínum 250. landsleik og skoraði tvö mörk en varði fimm skot.


Mörk Íslands: Sigvaldi Björn Guðjónsson 6, Janus Daði Smárason 5, Óðinn Þór Ríkharðsson 5, Viggó Kristjánsson 5/4, Elliði Snær Viðarsson 4, Gísli Þorgeir Kristjánsson 3, Ómar Ingi Magnússon 3/2, Aron Pálmarsson 2, Bjarki Már Elísson 2, Björgvin Páll Gústavsson 2, Elvar Ásgeirsson 1, Hákon Daði Styrmisson 1, Kristján Örn Kristjánsson, Donni, 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 5, Viktor Gísli Hallgrímsson 4.

Mörk Grænhöfðaeyja: Delcio Pina 11, Rafael Andrade 4, Paulo Moreno 3, Edmilson Araujo 2, Bruno Landim 2, Elledy Semedo 2, Felisberto Landim 2, Flavio Fortes 1, Admilson Estaliny Furtado 1, Gualther Furtado 1, Nelson Pina 1.

Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -