- Auglýsing -
- Auglýsing -

Tíu stærstu félagaskiptin

Elena Mikhaylichenko, önnur af tveimur markahæstu í Meistaradeild Evrópu um þessar mundir. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Nú er rétt rúm vika þangað til keppni hefst í Meistaradeild kvenna en handbolti.is ætlar að fylgjast grannt með keppninni. Þess vegna er ekki úr vegi að fara yfir stærstu félagaskipti sem áttu sér stað í sumar. Það er erfitt að taka sama þau 10 helstu og eflaust ekki allir sammála um röðunina en við getum verið sammála um að þessi félagaskipti gera keppnina enn athyglisverðari.


Elena Mikhaylichenko (frá Lada til HC CSKA)
Elena er ein af efnilegustu leikmönnunum í kvennaboltanum í dag og það verður gaman að fylgjast með henni taka sín fyrstu skref í Meistaradeildinni á komandi leiktíð. Þessi rússneska stúlka verður 19 ára í september en hún braust fram á sjónarsviðið í stöðu vinstri skyttu í rússneska landsliðnu á HM kvenna í desember 2019. Hún var svo valin leikmaður mánaðarins hjá EHF í janúar 2020, þar sem hún skoraði 37 mörk í fjórum leikjum Lada í Evrópubikarnum. Nýliðar CSKA sýna með þessum félagaskiptum að þær rússnesku ætla sér stóra hluta í Meistaradeildinni í vetur.


Tjasa Stanko (frá HC Podravka Vegeta til Metz Handball)
Efnilegasti leikmaður Meistaradeildar kvenna árið 2018 skiptir um félag öðru sinni á jafn mörgum árum. Að þessu sinni eru þau af stærri gerðinni. Þó að Tjasa Stanko sé aðeins 22 ára gömul hefur hún fyrir löngu sannað sig bæði með félagsliði sem og landsliði en vistaskipti hennar yfir til Metz er ný áskorun fyrir hana þar sem hún er komin í lið sem gerir tilkall til titilsins eftirsótta. Emmanuel Mayonnade, þjálfari Metz mun án efa treysta mikið á hana þegar kemur að því að stjórna sóknarleik liðsins enda er Tjasa gríðarlega klókur leikstjórnandi.

Emily Bölk t.h. reynir fyrir sér í Ungverjalandi á leiktíðinni. Mynd/EPA


Emily Bölk (frá Thüringer HC til FTC-Rail Cargo Hungaria)
Eftir vaska framgöngu á HM kvenna í desember voru allar dyr opnar fyrir Emily Bölk varðandi hver yrði næsti áfangastaður hjá henni. FTC var af mörgum ekki talin vera líklegur áfangastaður en hugsanlega er ungverska liðið besti kostur fyrir hana núna. Þar eru fyrir margir efnilegir leikmenn sem og tveir Þjóðverjar og það hefur eflaust hjálpað Bölk með að taka ákvörðun. Ungverska liðið hefur mikla löngun til að brjóta ísinn og komast í Final4 úrslitahelgina. Bölk er líkleg til þess að leiða liðið þangað ef henni tekst að aðlagast vel lífinu í Ungverjalandi.

Xenia Smits t.h. fluttist frá Frakklandi til Þýskalands í sumar. Mynd/EPA


Xenia Smits (frá Metz Handballt il SG BBM Bietigheim)
Þegar ein þýsk stjarna ákveður að yfirgefa heimalandið þá kemur önnur heim. Síðasta tímabil hjá Xenia Smits fór ekki eins og vonast var til þar sem hún átti við erfið axlarmeiðsli að stríða. Ferskt upphaf í heimalandinu gæti verið nákvæmlega það sem hún þarf á að halda núna. Bietigheim var metnaðarfullt á leikmannamarkaðnum í sumar og hefur fengið leikmenn á borð við Trine Östergaard, Stine Jörgensen og Emily Stang Sando. Xenia og Stine geta myndað gott teymi í skyttustöðunum sem getur fleytt þýska liðinu langt í Meistaradeildinni í vetur.


Grace Zaadi (frá Metz Handball til Rostov-Don)
Grace er annar leikmaður sem fer frá Metz sem kemst á þennan lista. Hún ákvað að fara til Rostov-Don sem er líklegur keppninautur Metz um að vinna keppnina. Það verður gríðarlega spennandi að fylgjast með samvinnu hennar og Önnu Vyakhirevu. Ef þær ná að vinna vel saman þá gæti það hreinlega orðið hreint augnakonfekt að fylgjast með rússneska meistaraliðinu.


Alexandrina Cabral Barbosa (frá Nantes Handball til CSM Búkarest)
Það sem gerir þessi félagaskipti helst athyglisverð er hversu nauðsynlegt það var fyrir CSM að fá leikmann í þessum gæðaflokki þar sem þær Andrea Lekic og Nora Mörk ákváðu að yfirgefa félagið. Þessi 34 ára spænska landsliðskona hefur ennþá getu til þess að vinna leiki uppá sitt einsdæmi. Það sannaði hún ítrekað á HM kvenna í desember, en þar var hún markahæst í nánast öllum leikjum Spánar og var valin í úrvalslið mótsins.

Franski markvörðurinn Laura Glauser. Mynd/EPA


Laura Glauser (frá Metz Handball til Györi Audi ETO KC)
Enn einn leikmaðurinn sem yfirgefur Metz. Laura er í fyrsta skipti að yfirgefa heimalandið og það í ekki bara í stórlið heldur besta kvennalið heims. Eflaust eru einhverjir sem myndu halda að það væri einhver ótti í Glauser að taka þetta stóra skref í ljósi þess að hún er nýstigin uppúr krossbandameiðslum. Þessi 26 ára markmaður er viss um að það verði hugsað vel um hana. Eftir að Kari Aalvik Grimsbö og Eva Kiss lögði skóna á hilluna frægu í sumar þurfti ungverska liðið að fylla þau skörð sem þær skildu eftir. Það var gert með því að fá Laura Glauser og þá norsku Silje Solberg. Óhætt er að segja að það sé leitun að öðru eins markvarðatríói eins og Györi hefur á að skipa en fyrir í fleti er franski landsliðsmarkvörðurinn, Amandine Leynaud.


Andrea Lekic (frá CSM Búkarest til Buducnost)
Ein af allra bestu leikstjórnendum kvennaboltans síðasta áratuginn heldur áfram að spila með bestu liðum Evrópu. Lekic ákvað að fara til Buducnost í sumar. Hún ásamt Allison Pineau, sem einnig gekk til liðs við svartfellska liðið í sumar, fá það hlutverk að leiða liðið aftur upp í hæstu hæðir í Evrópu. En hún gerir sér vel grein fyrir því hvers er ætlast til af leikmönnum Buducnost. Að spila fyrir Buducnost og klæðast treyjunni þýðir að þú þarft að berjast eins og ljón.

Lois Abbingh lék stórt hlutverki í sigri hollenska landsliðsins á HM í fyrra. Mynd/EPA


Lois Abbingh (frá Rostov-Don til Odense Håndbold)
Eftir erfitt tímabil fyrir áramót í fyrra þá sýndi Lois okkur öllum hversu öflugan leikmann Rostov-Don missti. Hún skoraði 71 mark fyrir Holland á HM kvenna í desember og lagði þungt lóð á vogarskálar hollenska liðsins svo það mætti vinna sinn fyrsta heimsmeistaratitil. Danska liðið Odense gerði virkilega vel með því að tryggja sér krafta þessarar frábæru handknattleikskonu í sumar. Að margra mati eru þetta stærstu félagaskiptin í sumar, sérstaklega með tilliti til í hversu góðu standi hún er um þessar mundir.

Nora Mörk er flutt heim til Noregs á nýjan leik. Mynd/EPA


Nora Mörk (frá CSM Búkarest til Vipers Kristiansand)
Það er ekki endilega öruggt að þetta séu stærstu félagaskiptin en þau vissulega hafa möguleika á að verða það. Fáir leikmenn hafa verið eins sterk ímynd fyrir kvennahandboltann eins og Nora þegar hún er uppá sitt besta. Það er eitthvað sem forráðarmenn Vipers vonast til að fá að sjá á þessari leiktíð. Þrátt fyrir að fjölskyldu aðstæður séu aðalástæðan fyrir því að Nora Mörk ákvað að koma aftur heim til Noregs þá er hún staðráðin í því að gera atlögu að þeim stóra í vor. Hún þarf samt að sanna það fyrir fólki að hún geti keppt í svona háum gæðaflokki sérstaklega þar sem hún er að jafna sig eftir sína tíundu hnéaðgerð. Þessi vistaskipti hennar til Vipers gæti verið nákvæmlega sem hún þarf á að halda og ef hún nær fyrri styrk þá mun það án efa hjálpa norska liðinu að gera atlögu að komast í Final4, úrslitahelgi Meistaradeildar kvenna í Búdapest í vor.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -