Ungverska meistaraliðið Veszprém með Aron Pálmarsson innan sinna raða heldur áfram sigurgöngu sinni í Meistaradeild Evrópu í handknattleik. Í kvöld vann liðið Dinamo í Búkarest með sjö marka mun, 33:26, eftir að hafa verið 18:13 yfir í hálfleik. Aron skoraði eitt mark og átti eina stoðsendingu. Haukur Þrastarson var ekki í leikmannahópi Dinamo Búkarest.
Engar skýringar er að finna á fjarveru Hauks í kvöld en um er að ræða fyrsta leik liðsins eftir HM-hlé.
Bjarki Már Elísson var ekki með Veszprém. Hann meiddist á hné á æfingu íslenska landsliðsins í Zagreb þegar leið nærri mótslokum og reiknað er með nokkra vikna fjarveru frá handboltavellinum.
Veszprém var með yfirhöndina í leiknum frá upphafi til enda. Eftir að hafa verið fimm mörkum yfir í hálfleik þá tókst leikmönnum Dinamo að minnka muninn í þrjú mörk í síðari hálfleik áður en Aron og félagar gáfu í á nýjan leik.

Hugo Descat skoraði níu mörk fyrir Vezprém og var markahæstur en liðið hefur 20 stig að loknum 11 leikjum og á þrjár viðureignir eftir. Lukas Sandell og Ludovic Fabregas skoruðu fimm mörk hvor. Branko Vujovoc og Haniel Langaro skoruðu fimm mörk hvor fyrir Dinamo sem er með 10 stig í fimmta sæti af átta liðum A-riðils.
Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson dæmdu leik Dinamo Búkarest og Veszprém.
Einar kom við sögu í Berlin
Danska liðið Fredericia HK tapaði fyrir Füchse í Max Schmeling-Halle í Berlín í kvöld, 36:29, en liðin eiga einnig sæti í A-riðli Meistaradeildarinnar. Liðsmenn Guðmundar Þórðar Guðmundsson voru fjórum mörkum undir í hálfleik, 18:14, eftir að hafa haldið jafnri stöðu lengi vel fram eftir fyrri hálfleik.
Einar Þorsteinn Ólafsson skoraði eitt mark fyrir Fredericia HK og gaf þrjár stoðsendingar. Anders Martinusen var markahæstur með sjö mörk. Daninn Lasse Andersson var markahæstur hjá Füchse Berlin með 12 mörk og landi hans Mathias Gidsel skoraði átta mörk og þrjár stoðsendingar.
Füchse hefur 14 stig eftir 11 leiki í A-riðli og stendur jafnt PSG sem á leik síðar í kvöld eins Sporting sem hefur 13 stig.
Fredericia HK rekur lestina í riðlinum með þrjú stig.