Handknattleiksmaðurinn Tjörvi Týr Gíslason leikur ekki með Bergischer HC á komandi leiktíð. Hann er einn þeirra leikmanna sem yfirgefa félagið í sumar. Tjörvi Týr gekk til liðs við Bergischer HC fyrir ári síðan. Hann lék töluvert með liðinu í 2. deild á fyrri hluta síðustu leiktíðar en heldur dró úr þátttöku hans þegar á keppnistímabilið leið.
Ekki liggur fyrir hvort Tjörvi Týr tekur upp þráðinn með Val en hann lék með Valsliðinu áður en hann fór til Þýskalands.
Uppfært: Heimildir handbolta.is herma að Tjörvi Týr stefni á að vera áfram ytra, alltént láta á það reyna hvort ekki hlaupi eitthvað á snærið.
Snöggir upp aftur
Bergischer HC vann næst efstu deild þýska handknattleiksins með yfirburðum í vor undir stjórn Arnórs Þórs Gunnarssonar og Markus Pütz. Þeir félagar tóku við þjálfun liðsins síðla leiktíðar vorið 2024 þegar staða þess í fallbaráttu 1. deildar var orðin vonlítil. Þeir blésu til sóknar í upphafi síðasta tímabils og fóru með liðið upp á glæsilegan hátt.
Bergischer HC hefur samið við Hollendinginn Lars Kooij í stað Tjörva Týs. Kooij var síðast hjá Vardar Skopje.