- Auglýsing -
- Auglýsing -

Tók að sér að stokka upp spilin og ná árangri í Hollandi

Erlingur Richardsson, landsliðsþjálfari Hollands. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Hollenska landsliðið í handknattleik karla hefur sótt í sig veðrið á undanförnum árum, ekki síst eftir að Erlingur Richardsson, tók við þjálfun þess fyrir nærri fjórum árum. Framundan er þátttaka í lokakeppni Evrópumótsins í annað skiptið í röð en hollenska liðið dróst í riðil m.a. með íslenska landsliðinu.


Vissulega verða þátttökulið fleiri nú en ekki má heldur horfa framhjá að hollenska liðið náði glæsilegum árangri í undankeppninni sem lauk um mánaðarmótin. Holland fékk níu stig eins og Slóvenar í fimmta riðli undankeppninnar og unnu m.a. Pólverja í báðum viðureignum og gerðu jafntefli við Slóvena á útivelli. Nokkuð sem hefði þótt saga til næsta bæjar fyrir fáeinum árum.

Nýr kjarni varð til

„Ein skýringin á bættum árangri karlalandsliðsins á síðustu árum er meðal annars sú að þegar ég var ráðinn landsliðsþjálfari þá var eitt og annað stokkað upp um leið,“ sagði Erlingur Richardsson þegar handbolti.is sló á þráðinn til hans á dögunum.


„Áður en ég kom að þessu þá var það lenska hjá mörgum eldri leikmönnum liðsins að velja sér verkefni með landsliðinu. Sambandið vildi ekki halda þeirri vinnu áfram heldur hlúa að tveimur árgöngum leikmanna sem höfðu staðið sig vel á unglingamótum á árunum áður en ég kom að þessu. Búa til kjarna í kringum þennan hóp leikmanna með það að markmiði að komast inn á EM 2020 vitandi að það ætti að fjölga þátttökuþjóðum úr 16 í 24. Nota tækifærið, komast á stórmót og halda síðan áfram að byggja ofan á það,“ sagði Erlingur sem tók þátt í að gera fleiri breytingar sem sneri að ungum leikmönnum.

Styrkja þjálfun heimafyrir

Um árabil hafa Hollendingar lagt nokkra áherslu á að koma ungum leikmönnum sínum að hjá annarrar- og þriðjudeildar liðum í Þýskalandi með misjöfnum árangri í stað þess að hlúa betur að þjálfun þeirra heima í Hollandi, móta þá betur og freista þess þannig að efnilegir leikmenn komist frekar að hjá stærri félögum með tíð og tíma.

„Ég taldi rétt að láta leikmenn leika lengur heima í Hollandi. Styrkja frekar félögin og þjálfun heima fyrir og hjálpa svo mönnum að komast að hjá stærri liðum þegar þeir væri orðnir góðir,“ sagði Erlingur og bendir á að hjá hluta félaganna í Þýskalandi væri þróun leikmanna ekki gefinn mikill gaumur, meira væri lagt upp úr úrslitum leikja.

Hópurinn er að styrkjast

„Okkur hefur tekist að styrkja þennan þátt sem meðal annars lýsir sér í að Luc Steins, miðjumaður, er nú í herbúðum PSG og Kay Smits er á leið til Magdeburg. En við verðum að halda áfram þessari vinnu og fjölga í hópi þeirra sem leikur með öflugum liðum. Með áframhaldandi markvissu starfi tel ég það vera gerlegt. Íslendingar þekkja þetta vel hjá sínum landsliðum í gegnum tíðina.“

Erfið samkeppni

Erlingur segir að samkeppnin um leikmenn sé mikil í Hollandi þar sem fótboltinn er gríðarlega vinsæll. Fótboltinn hefur úr miklum peningum að moða á sama tíma og minna er um peninga að ræða í hollenskum handknattleik og fleiri íþróttagreinum.

Læknir og endurskoðendur

„Fyrir vikið gengur námið fyrir hjá mörgum fremur en að huga að frama á handknattleiksvellinum. Sem dæmi má nefna Ephrahim Jerry sem nú er á leiðinni til Aðalsteins Eyjólfssonar hjá Kadetten í Sviss. Það tók okkur talsverðan tíma að sannfæra hann um að veðja á handboltann vegna þess að hann hefur lokið læknisnámi. Í landsliðinu um þessar mundir eru meðal annars tveir menntaðir endurskoðendur. Þeir eru tvístígandi hvað skref þeir eigi að taka, sinna starfinu sem þeir hafa menntað sig til eða að gefa handboltanum tækifæri í nokkur ár. Þeir eiga til dæmis ekki auðvelt með að fá frí frá vinnu til að keppa með landsliðinu. Í Hollandi sækja kannski þúsund manns um eftirsótt starf. Þess vegna eru menn ekki ginnkeyptir fyrir að sleppa tækifæri á góðu starfi fyrir óvissu í kringum handbolta.“

70% iðkenda eru konur

Talsverð hefð er fyrir handknattleik í Hollandi. Um 70 þúsund skráðir iðkendur er í landinu, 70% af þeim er konur. Hollenska kvennalandsliðið hefur um árabil verið eitt það besta í heiminum og er m.a. ríkjandi heimsmeistari.

Erlingur Richardsson og leikmenn fagna í leik við Pólverja á útivelli í mars. Mynd/EPA


„Greinin stendur ágætlega í Hollandi hvað varðar þjálfara og þekkingu þeirra auk þess sem hollenskir þjálfarar starfa hjá félögum í Þýskalandi s.s. hjá Gummersbach, Flensburg og Melsungen,“ sagði Erlingur sem dæmi. Þess utan sem hollenskir handknattleiksmenn eru víða, meðal annars í tveimur efstu deildum Þýskalands. Hinsvegar má áfram skerpa á áherslum í stefnu með landslið karla og fjölga leikmönnum hjá sterkari liðum.”

Öll tækfæri nýtt

„Eftir að ég tók við í okótber 2017 höfum við leikið 47 landsleiki. Aðeins sex þeirra eru eftir EM2020. Frá október 2017 höfum við notað um 70 leikmenn og reynt að nýta hvert einasta tækifæri til koma saman til æfinga og að keppa. Ef þeir sterkustu hafa ekki komist vegna leikja með félagsliðum utan Hollands þá hafa aðrir verið kallaðir inn í staðinn. Við höfum meðal annars farið til Asíu til þátttöku á móti. Einnig vorum við með á móti í Hollandi í apríl 2018. Íslenska B-landsliðið og japanska landsliðið tóku þátt. Við tefldum fram tveimur liðum og kölluðum saman 40 leikmenn. Á þeim tíma fengum við mikla innsýn inn hópinn.


Við höfum nýtt hvert tækifæri til þess að kalla saman landsliðið til æfinga og til keppni á mótum. Hollenska handknattleikssambandið hefur gert mikið til þess að við gætum prófað okkur áfram og þróað landsliðið,“ sagði Erlingur.

Þurfum að stækka hópinn

Næsta verkefni verður að stækka hópinn af gæðaleikmönnum. Eins og staðan er þá megum við ekki við miklu afföllum fyrir EM í janúar til þess að eiga einhverja möguleik í leikjum okkar á mótinu. En mér finnst liðið eins og það er skipað núna leika skemmtilegan handknattleik. Samsetningin hefur verið talsvert púsluspil, ekki síst í varnarleiknum. Þeir sem standa í miðjublokkinni leika til dæmis með hollenskum félagsliðum,“ segir Erlingur Richardsson, landsliðþjálfari Hollands í handknattleik karla í samtali við handbolta.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -