- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Tókst að forðast höfuðhögg

Viggó Kristjánsson var valinn maður leiksins eftir sigurinn á Marokkó í gærkvöld. Mynd/EPA
- Auglýsing -

„Ég kom á fullri ferð á vörnina í hraðaupphlaupi, komst í skotfæri en þá var slegið af krafti undir þindina. Það var vont í mínútu en svo jafnaði það sig. Mér tókst að forðast höfuðhögg sem betur fer,“ sagði Viggó Kristjánsson, maður leiksins, þegar íslenska landsliðið vann Marokkó í gærkvöld í lokaleik F-riðils heimsmeistaramótsins, 31:23.


Þrjú rauð spjöld og eitt blátt, sem getur þýtt leikbann í næsta leik, fengu Marokkómenn í leiknum fyrir ruddabrot sem eiga ekki að sjást í handknattleik. Viggó varð fyrir einu brotanna, Gísli Þorgeir Kristjánsson öðru og Elvar Örn Jónsson því þriðja. Blátt spjald getur þýtt leikbann í næsta leik hjá Marokkó sem á framundan leik í hinum sívinsæla forsetabikar IHF. Um hann keppa neðstu liðin á mótinu. Viggó sagðist vonast til að höggið og byltan dragi ekki dilk á eftir sér.

Komst fljótlega í takt

„Byrjunin var svolítið brösótt hjá okkur en ég fann mig fljótlega vel og tókst að fara nokkrum sinnum á milli varnarmannanna sem var nauðsynlegt til þess að komast í takt við leikinn. Þeir léku vörnina mjög framarlega svo þegar öllu er botninn hvolft þá er ég ánægður með hvernig mér tókst til strax í byrjun,“ sagði Viggó og benti að hlaupaleiðirnar í gegnum vörn Marokkó hafi opnast eins og við var búist þegar hreyfing komst á íslenska sóknarleikinn.

„Þegar við létum boltann ganga þá tókst að opna vörnina. En þegar litið er á leikinn í heild þá má segja að sigur okkar hafi aldrei verið í hættu en einnig tókst okkur aldrei að slíta þá almennilega frá okkur eins og til dæmis gegn Alsír á laugardaginn,“ sagði Viggó ennfremur en hann skorað sex mörk og vann vítakast auk stoðsendinga.

„Það var frekar óþægilegt að leika við þá. Þeir leika allt öðrvísi handknattleik en maður er vanur. Það kemur klipping eftir klippingu og síðan er skyndilega gefið inn á línuna. Auk þess léku þeir langar sóknir með litla og mjög snögga leikmenn. Allt mjög óhefðbundið en áhugavert,“ sagði Viggó ennfremur.

Á réttri leið

Nú er íslenska landsliðið komið í milliriðlakeppnina og fer inn í milliriðil þrjú með tvö stig í farteskinu þar sem sigurinn á Alsír á föstudag fylgir með vegna þess að Alsír á einnig sæti í milliriðlinum. Viggó sagðist vera ánægður með áfangann þótt vissulega hafi stefnan verið að fara með fjögur stig áfram.


„Það segir sig sjálft að ef við vinnum alla leikina í milliriðlinum þá förum við áfram í átta liða úrslitin. Fyrsti leikurinn verður við Sviss. Framundan er undirbúningur fyrir þann leik þar sem ekkert annað en sigur kemur til greina,“ sagði Viggí Kristjánsson, landsliðsmaður í handknattleik í samtali við handbolta.is í Kaíró í gærkvöld.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -