Leikmenn landsliðs Litáen vildu fremur sitja í langferðabíl í 15 stundir en að fara með flugvél að heiman og til Kosice í Slóvakíu þar sem þeir taka þátt í Evrópumeistaramótinu handknattleik sem hefst á morgun.
Var þetta gert til þess að forðast smit á leiðinni en þegar hefur einn leikmaður landsliðsins helst úr lestinni vegna covidsmits. Í síðustu viku hættu Litaár við að koma til Íslands til tveggja vináttuleikja af ótta við að smitast á leiðinni eða þá á Íslandi. Til stóð að liðið færi í samfloti með íslenska landsliðinu til Búdapest í gær í leiguflugi.
Leikmönnum stóðu tveir kostir í boði, rútuferð eða flug. Þeir völdu allir fyrri kostinn og þar með var lagt af stað eftir því sem fregnir herma. Eins og áður segir tók ferðin um 15 stundir.
Litáar komu til Kosice í dag en þeir mæta Rússum í fyrsta leik síðdegis á morgun. Þeir mæta Slóvökum á laugardaginn og Norðmönnum á mánudaginn. Eftir það kemur í ljós hvort Litáar halda áfram keppni eða halda á ný til síns heima. Tvö lið fara áfram úr F-riðli mótsins eins og hinum fimm riðlum Evrópumótsins.
Eins og kom fram í frétt handbolta.is í morgun eru fimm úr landsliðshópi Litáa með sterk tengsl við Ísland.