„Þetta er hörkuriðill hjá okkur og töluvert verkefni sem bíður okkar,“ segir Arnar Pétursson landsliðsþjálfari kvenna í handknattleik í samtali við handbolta.is eftir að dregið var í riðla í undankeppni EM kvenna í Cluj-Napoca í Rúmeníu í dag.
Íslenska landsliðið sem var í öðrum styrkleikaflokki þegar dregið var hafnaði í hörkuriðli með Svartfellingum, Portúgölum og Færeyingum. Óhætt er að segja að um erfiðan riðil sé að ræða.
Svartfellingar hafa lengi verið í allra fremstu röð í Evrópu. Portúgal hefur verið í mikilli sókn og náð afar góðum árangri á stórmótum yngri landsliða m.a. vann portúgalska liðið það íslenska á EMU19 ára sumarið 2023 og aftur á HMU20 ára landsliða á síðasta sumri. U19 ára landslið Portúgal hafnaði í 3. sæti á EM 19 ára landsliða í Rúmeníu sumarið 2023.
Færeyska landsliðið er í stórsókn og gerði það afar gott á EM í lok síðasta árs auk mikil meðbyrs í kjölfar opnunar þjóðarhallarinnar í síðasta mánuði. M.a. hafa selst yfir 2.000 miðar á viðureign Færeyinga og Litáa í umspili HM í næsta mánuði. Færeyska landsliðið var það sterkasta í fjórða styrkleikaflokki og í raun hreint ótrúlegt að það hafi ekki verið skör hærra þegar raðað var í flokkana.
Færeyjar og Portúgal í október
Eftir því sem handbolti.is kemst næst verða fyrstu leikirnir hér á landi við Færeyinga í október og á útivelli gegn Portúgal. Leikið verður heima og heiman gegn Svartfellingum í mars 2026 og áður en tekið verður á móti Portúgölum hér á landi í apríl 2026 og Færeyingar sóttir heim í þjóðarhöllina, Við Tjarnir, 11. eða 12. apríl á næsta ári.
Riðlaskiptingin:
1.riðill: Frakkland, Króatía, Kósovó, Finnland.
2.riðill: Holland, Sviss, Ítalía, Bosnía.
3.riðill: Þýskaland, Slóvenía, N-Makedónía, Belgía.
4.riðill: Svartfjalland, Ísland, Portúgal, Færeyjar.
5.riðill: Svíþjóð, Serbía, Úkraína, Litáen.
6.riðill: Spánn, Austurríki, Grkkland, Ísrael.
Fyrsta og önnur umferð undankeppninnar verður leikin 15. – 19. október 2025, þriðja og fjórða umferð 4. – 8. mars 2026 og síðustu tvær umferðirnar verða leiknar frá 8. til 12. apríl 2026.
Tvö efstu lið hvers riðils komast í lokakeppni EM í desember 2026 auk fjögurra liða sem hafna í þriðja sæti.