- Auglýsing -
- Auglýsing -

Töpuðu mikilvægum stigum – Ómar Ingi skoraði 13

Ómar Ingi Magnússon leikmaður Magdeburg og íslenska landsliðsins. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Alexander Petersson og félagar í Flensburg töpuðu stigi í toppbaráttu þýsku 1. deildarinnar í handknattleik í kvöld þegar þeir gerðu jafntefli við Rhein-Neckar Löwen á heimavelli, 26:26. Á sama tíma vann Kiel öruggan sigur á Leipzig, 33:26, og hefur þar með tapað einu stigi færra en Flensburg-liðið.
Alexander skoraði ekki mark í leiknum. Ýmir Örn Gíslason skoraði eitt mark fyrir Rhein-Neckar Löwen og var einnig fastur fyrir í vörninni. Var Ými einu sinni vísað af leikvelli í tvær mínútur. Daninn Mads Mensah skoraði níu mörk fyrir Flensburg og var markahæstur. Niclas Kirkelökke skoraði sjö mörk fyrir Löwen.

Ómar Ingi Magnússon skoraði hvorki fleiri né færri en 13 mörk, þar af níu úr vítaköstum þegar nýkrýndir sigurvegarar Evrópudeildarinnar, Magdeburg, unnu Tusem Essen á útivelli, 31:26. Ómar átti 18 markskot, þar af 10 af vítalínunni. Gísli Þorgeir Kristjánsson lék ekki með Magdeburg vegna meiðsla.


Ómar Ingi er næst markahæsti leikmaður deildarinnar með 210 mörk, er 11 mörkum á eftir Marcel Schiller hjá Göppingen.


Lærisveinar Guðmundar Þórðar Guðmundssonar í MT Melsungen unnu mikinn baráttusigur á Ludwigshafen en síðarnefnda liðið hefur sótt í sig veðrið síðustu vikurnar og reynst mörgum skeinuhætt. Melsungen var undir á kafla í leiknum, m.a. í hálfleik, 14:13. Kai Häfner skoraði sex mörk fyrir Melsungen og Julius Kühn fimm. Arnar Freyr Arnarsson skoraði ekki fyrir Melsungen að þessu sinni.


Bjarki Már Elísson og Lemgo tapaði fyrir Füchse Berlin, 30:24, í Berlín. Bjarki Már skoraði sex mörk í leiknum, þar af fjögur úr vítaköstum, og var markahæstur í Lemgo-liðinu. Bjarki Már er fimmti markahæsti leikmaður deildarinnar með 191 mark.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -