Svíþjóðarmeistarar IK Sävehof með Tryggva Þórisson innan sinna raða unnu HF Karlskrona, 28:22, á útivelli í fyrstu viðureign liðanna í átta lið úrslitum sænsku úrvalsdeildarinnar í kvöld. Á sama tíma töpuðu Einar Bragi Aðalsteinsson og liðsfélagar á heimavelli fyrir Hammarby, 27:25.
Ólafur með fjögur
Ólafur Andrés Guðmundsson skoraði fjögur mörk fyrir Karlskrona í tapleiknum á heimavelli í kvöld. Dagur Sverrir Kristjánsson skoraði eitt mark. Phil Döhler markvörður liðsins, sem lék með FH fyrir fáeinum árum, skoraði eitt mark. Því miður eru öngvar upplýsingar að fá um hversu mörg skot Döhler varði.
Óli í stuði
Tryggvi skoraði ekki mark fyrir Sävehof sem fær Karlskrona í heimsókn til Partille á fimmtudagskvöld í öðrum leik liðanna í átta liða úrslitum. Færeyingurinn Óli Mittún skoraði 10 mörk fyrir Sävehof og lék piltur varnarmenn Karlskrona afar grátt.
Skoruðu tvö síðustu mörkin
Einar Bragi Aðalsteinsson skoraði eitt mark í tapi IFK Kristianstad fyrir Hammarby, 27:25, í Kristianstad. Heimamenn voru marki yfir í hálfleik, 16:15. Framan af síðari hálfleik voru leikmenn Kristianstad með vind í seglum og m.a. kom Einar Bragi liðinu yfir 21:19 með marki sínu. Stokkhólmsliðið skoraði tvö síðustu mörkin.
Næsta viðureign liðanna verður á heimavelli Hammarby á föstudagskvöld. Vinna þarf þrjá leiki til þess að komast í undanúrslit.