Tumi Steinn Rúnarsson og félagar í Coburg færðust upp í 10. sæti 2. deildar þýska handknattleiksins í kvöld þegar þeir lögðu Konstanz örugglega á útivelli, 35:27. Tumi Steinn skoraði fimm mörk fyrir Coburg, þar af eitt úr vítakasti. Auk þess átti hann eina stoðsendingu. Coburg er með 20 stig eftir 20 leiki.
Tumi Steinn var ekki einu Íslendingurinn sem var í sigurliði í leikjum kvöldsins í deildinni.
Sveinn Andri Sveinsson skoraði einnig fimm mörk fyrir HC Empor Rostock þegar liðið vann Tusem Essen, 28:25, á heimavelli. Einnig átti Sveinn Andri tvær stoðsendingar. Essen var þremur mörkum yfir eftir fyrri hálfleik, 15:12. Rostock er áfram næst neðst þrátt fyrir sigurinn með 10 stig eftir 19 leiki.
Úkraínska meistaraliðið HC Motor vann Lübeck-Schwartau, 25:22, á núverandi heimavelli sínum í Düsseldorf. Roland Eradze er aðstoðarþjálfari HC Motor og Gintaras Savukynas, sem mörgum er að góðu kunnur hér á landi er þjálfari liðsins.
Motor er komið upp í 16. sæti með 13 stig eftir 20 leiki.