Íslenska landsliðið upplifði 20 mínútna martröð í Westafalenhallen í Dortmund í kvöld og tapaði með sjö marka mun fyrir Spánverjum, 30:23, í öðrum leik sínum í milliriðlakeppni heimsmeistaramóts kvenna í handknattleik. Nítján mínútum fyrir leikslok var íslenska liðið þremur mörkum yfir, 19:16. Spánverjar skoruðu þá 13 mörk gegn einu íslensku á 17 mínútna kafla og staðan var orðin, 29:20. Ekki stóð steinn yfir steini í sóknar- og varnarleiknum. Þegar við bættust margir afar hæpnir dómar, jafnt í vörn sem sókn, þá var ekki að sökum að spyrja.
Slakir dómarar
Andrej Budzak og Michal Zahradnik frá Slóvakíu voru ekki burðugir og margt fór fram hjá þeim eins þegar þeir dæmdu ruðning á Þóreyju Önnu Ásgeirsdóttur þegar stigið var fyrir hana á leið inn úr hægra horni í síðari hálfleik. Eins voru dómararnir að hasta á Matthildi Lilju Jónsdóttur sem kvartaði eftir að hafa verið slegin í andlitið í vörninni. Fleiri atriði má tína til eins og þegar boltinn var dæmdur af Díönu Dögg Magnúsdóttur í síðari hálfleik þegar hún var slegin er hún sótti að vörn Spánverja. En þetta mun vera hluti af leiknum og hluti af því að vera minna liðið og njóta minni virðingar.
Til að bæta gráu ofan á svart
Til að bæta gráu ofan á svart fyrir íslenska liðið þá fór Lucia Prades að verja allt hvað af tók í spænska markinu og lauk leik með 41% hlutfallsmarkvörslu. Síðasti leikur íslenska landsliðsins í keppninni verður gegn Færeyingum á laugardagskvöld klukkan 19.30. Hugsanlega verður Arnar Pétursson landsliðsþjálfari í leikbanni í leiknum en hann fékk rautt spjald á síðustu mínútu leiksins þegar mælirinn var orðinn smekkfullur hjá honum sökum óánægju með dómgæslu.
Í 40 mínútur var íslenska liðið síst lakara liðið. Það náði þriggja marka forskoti í fyrri hálfleik, 12:9, en missti það niður í 13:14 fyrir Spán áður en síðari hálfleikur var úti.
Lærdómsríkt
Tveir síðustu leikir verða íslenska landsliðinu lærdómsríkir. Það þarf úthald og þolgæði til þess að leika við margar öflugar þjóðir á skömmum tíma. Viðureignin í kvöld var sú fjórða við sterkari andstæðing á níu dögum.
Mörk Íslands: Thea Imani Sturludóttir 7, Elín Klara Þorkelsdóttir 5, Elín Rósa Magnúsdóttir 3, Sandra Erlingsdóttir 3/2, Dana Björg Guðmundsdóttir 1, Díana Dögg Magnúsdóttir 2, Þórey Anna Ásgeirsdóttir 1, Katrín Tinna Jensdóttir 1.
Varin skot: Hafdís Renötudóttir 11/2, 29% – Sara Sif Helgadóttir 2, 50%.
Ítarlegri tölfræði.
Handbolti.is var í Westfalenhalle og fylgist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.





