- Auglýsing -
- Auglýsing -

Tvö mörk á tíu sekúndum og Eyjamenn fögnuðu

Hákon Daði Styrmisson varð næst markahæstur i Olísdeildinni. Mynd/Skapti Hallgrímsson, akureyri.net
- Auglýsing -

ÍBV fór með bæði stigin úr heimsókn sinni til Vals í Olísdeild karla í handknattleik eftir afar dramatískar lokasekúndur, 29:28. Valur jafnaði metin þegar tíu sekúndur voru til leiksloka en Eyjamenn nýttu leiktímann til fulls og unnu vítakast, afar umdeilt, og Hákon Daði Styrmisson skoraði sigurmarkið. Þetta var þriðja viðureign liðanna á leiktíðinni og hefur ÍBV fagnað í leikslok þeirra allra.


Valsmenn geta fyrst og síðast sjálfum sér um kennt að hafa hleypt Eyjamönnum hvað eftir annað inn í leikinn, síðasta í stöðunni 27:24, þegar fáeinar mínútur voru til leiksloka.


Lengst af fyrri hálfleiks þá áttu Eyjamenn erfitt uppdráttar. Sóknarleikurinn gekk illa gegn góðri vörn Valsmanna. Sókn eftir sókn komu þeir vart skoti á markið og ef það tókst þá var Martin Nágy vel með á nótunum í marki Vals. Heimamenn juku forskot sitt jafnt og þetta og var komnir sjö mörkum yfir, 13:7, þegar talsvert var liðið á hálfleikinn.


Þótt sóknarleikurinn gengu illa þá var varnarleikurinn lengst af viðunandi. Dropinn holar steinninn. Leikmenn ÍBV eru ekki þekktir fyrir að leggja árar í bát. Þeim tókst að vinna boltann nokkrum sinnum af Valsmönnum á síðustu tíu mínútum hálfleiksins og rétta stöðu sína. Valur var þar af leiðandi aðeins með þriggja marka forskot þegar gengið var til búningsherbergja eftir 30 mínútna leik, 15:12.


Valur hélt þriggja marka forskoti fyrstu tíu mínútur síðari hálfleiks áður en leikmönnum ÍBV tókst að færa sér hvað eftir annað ónákvæmni Valsmanna. Dagur Arnarsson jafnaði metin, 22:22, með skoti yfir endilangan völlinn og Hákon Daði Styrmisson kom ÍBV yfir á 47. mínútu, 23:22. Var það í fyrsta sinn frá því á þriðju mínútu sem ÍBV var yfir í leiknum.


Eftir leikhlé svöruðu Valsmenn með þremur mörkum í röð, 26:23, tíu mínútum fyrir leikslok. Leikmenn ÍBV spiluðu illa úr stöðunni. Flýttu sér um of í sókninni og völdu ekki alltaf besta kostinn til að skjóta á markið.


Leikmenn Vals voru sjálfum sér verstir og hleyptu ÍBV inn í leikinn aftur á síðustu fimm mínútunum með óvandvirkum leik. Ekki má heldur gleyma mikilvægum skotum sem Björn Viðar Björnsson varði í marki ÍBV á síðustu mínútunum. Leikmenn ÍBV fengu boltann nánast á silfurfati hvað eftir annað, síðast þegar rúmlega hálf mínúta var eftir og þeir marki yfir, 28:27.

Þar með er ekki öll sagan sögð því Einar Þorsteinn Ólafsson vann boltann í vörn Vals og jafnaði metin þegar 10 sekúndur voru eftir, 28:28. Leikmenn ÍBV brunuðu upp í sókn og Gabríel Martinez Róbertsson vann vítakast á síðustu sekúndu þegar hann fór inn úr hægra horni og hafnaði á Vigni Stefánssyni. Harður og umdeildur dómur. Hákon Daði Styrmisson skoraði úr vítakastinu og tryggði ÍBV tvö stig.


Leikurinn fer seint í kennslubækur fyrir að vera vel leikinn. Til þess gerðu leikmenn sig seka um alltof mörg einföld mistök s.s. að sendingar rötuðu ekki samherja á milli.


Mörk Vals: Magnús Óli Magnússon 6, Finnur Ingi Stefánsson 5/1, Anton Rúnarsson 5, Stiven Tobar Valencia 3, Tumi Steinn Rúnarsson 2, Einar Þorsteinn Ólafsson 2, Róbert Aron Hostert 2, Vignir Stefánsson 1, Þorgils Jón Svölu-Baldursson 1, Alexander Örn Júlíusson 1.
Varin skot: Martin Nágy 11, 32,4% – Einar Baldvin Baldvinsson 1, 25%.
Mörk ÍBV: Hákon Daði Styrmisson 10/5, Sigtryggur Daði Rúnarsson 6, Dagur Arnarsson 4, Kári Kristján Kristjánsson 3, Sveinn Jose Rivera 2, Gabríel Martinez Róbertsson 2, Svanur Páll Vilhjálmsson 1.
Varin skot: Petar Jokanovic 9, 25% – Björn Viðar Björnsson 2, 66,7%.

Öll tölfræði leikins hjá HBStatz.

Staðan í Olísdeild karla.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -