Þýska handknattleiksliðið VfL Gummersbach, sem Guðjón Valur Sigurðsson þjálfar, bætti tveimur stigum í safnið í kvöld þegar það lagði HSG Wetzlar, 31:29, í þýsku 1. deildinni í Buderus Arena Wetzlar. Gummersbach settist í 5. sæti deildarinnar eftir sigurinn með 17 stig, er stigi á eftir THW Kiel, en hefur jafn mörg stig og Lemgo.
Elliði Snær Viðarsson skoraði þrjú mörk í fjórum skotum fyrir Gummersbach og Teitur Örn Einarsson náði að nýta annað af tveimur skotum sínum til þess að skora mark. Teiti Erni var vikið einu sinni af leikvelli.
Julian Köster og Kristjan Horzen voru markahæstir hjá Gummersbach með fimm mörk hvor.
Philipp Ahouansou skoraði 10 mörk fyrir Wetzlar sem er í 15. sæti af 18 liðum með fimm stig.




