- Auglýsing -
- Auglýsing -

U17: Skiljum allt eftir á gólfinu

Sigri fagnað á Spánverjum í undanúrslitum í gær. Í dag bíður úrslitaleikurinn. Mynd/EHF
- Auglýsing -

„Það er tilhlökkun í hópnum fyrir úrslitaleiknum í dag. Við förum í leikinn með það að markmiði að leggja allt sem við eigum í hann. Allt verður skilið eftir á gólfinu í leikslok. Vonandi dugir það okkur til þess að vinna,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari U19 ára landsliðs kvenna við handbolta.is fyrir úrslitaleik Íslands og Norður Makedóníu í B-deild Evrópumóts kvenna í handknattleik sem fram fer í dag.

Bein útsending

Flautað verður til leiks klukkan 15 í íþróttahöllinni í Klaipéda í Litáen. Hægt verður a fylgjast með leiknum í beinni útsendingu og án endurgjalds á ehftv.com. Handbolti.is ætlar einnig að fylgjast með leiknum eftir megni í máli og myndum eins og öllum fyrri viðureignum íslenska landsliðsins á mótinu til þessa.

Íslenska liðið hefur unnið fimm leiki og gert eitt jafntefli á mótinu fram til þessa.

Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari t.h. yfirvegaður í spennunni á hliðarlínunnií undanúrslitaleiknum. Mynd/EHF

Líkamlega sterkar

Leikurinn leggst vel í leikmenn og þjálfara íslenska liðsins, að sögn Ágústs. Lið Norður Makedóníu hefur innan sinna ráða mjög öfluga vinstri handarskyttu sem gerði Pólverjum lífið leitt í undanúrslitaleiknum í gær. Eins er skyttan vinstra megin sterk. „Leikmenn liðsins er heilt yfir mjög líkamlega sterkar þannig að við verðum að vera mjög massívar gegn þeim,“ sagði Ágúst Þór sem er hvergi banginn að vanda.

Katrín Anna Ásmundsdóttir fagnar einu af mörkum sínum. Mynd/EHF


Pólverjar skoruðu aðeins 22 mörk í undanúrslitaleiknum gegn Norður Makedóníu. Ágúst Þór segir að leita verði allra lausna til þess að koma hreyfingu á vörnina til að opna hana, slíta í sundur, eins og þjálfarinn orðar það. „Við munum halda okkar fyrra skipulagi í sókninni sem hefur gefist vel og freista þess að keyra upp hraðann eins og kostur er. Vonandi er það eitthvað sem dugar,“ sagði Ágúst Þór.

Sjötti leikurinn á níu dögum

Allir leikmenn íslenska liðsins hafa notað tímann vel eftir sigurinn á Spáni í gær til að safna kröftum enda mun ekki af veita. Viðureignin við Spánverja tók sinn toll, jafnt andlega sem líkamlega. Einnig er þetta sjötti leikur liðanna á níu dögum.

Elín Klara Þorkelsdóttir í opnu færi. Mynd/EHF


„Við getum vonandi náð góðri frammistöðu. Þannig er ég sannfærður um að við getum unnið lið Norður Makedóníu sem leit afar vel út í gær á móti Póllandi.


Fyrst og fremst viljum við fá góða frammistöðu og allir leikmenn eigi góðar minningar þegar upp verður staðið. Stelpurnar eru svo sannarlega spenntar,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari U17 ára landsliðs kvenna við handbolta.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -