- Auglýsing -
- Auglýsing -

U17: „Stelpurnar geta verið stoltar af frammistöðunni“

Ágúst Þór Jóhannsson hefur náð frábærum árangri með U18 ára landslið kvenna. Mynd/EHF
- Auglýsing -

„Stelpurnar geta verið afar ánægðar með frammistöðu sína og ég er viss um að þær verða það eftir fáeina daga þegar rykið hefur sest,“ sagði Ágúst Þór Jóhannesson, þjálfari U17 ára landsliðs kvenna við handbolta.is eftir tap íslenska liðsins fyrir Norður Makedóníu í úrslitaleik B-deildar Evrópumóts kvenna í Klapiéda í Litáen í dag, 27:26.

Vonbrigði að tapa úrslitaleik

„Það eru vissulega vonbrigði að tapa úrslitaleik, ekki síst eftir að hafa náð frumkvæðinu um skeið. Því miður þá náðum við ekki alveg að hitta á okkar besta dag og fórum með alltof mörg góð marktækifæri. Það er dýrt þegar upp er staðið,“ sagði Ágúst Þór sem var ánægður með sóknarleikinn þótt hann hafi ekki alveg dugað til að þessu sinni.

Tættum vörnina í sundur

„Sóknarleikurinn var góður. Okkur tókst að tæta vörnina í sundir og skapa okkur mörg færi. Eins lánaðist okkur að keyra seinni bylgjuna vel á Norður Makedóníuliðið í seinni hálfleik. Lið Norður Makedóníu lék langar sóknir og við fengum fyrir vikið á okkar klaufamörk þegar á leikinn leið enda reynir það mjög á að standa langar varnir gegn liði sem fær að leika með þessum hætti,“ sagði Ágúst Þór sem ítrekaði að hann væri afar stoltur af liði sínu sem hafi lagt allt í sölurnar á þessu móti.

Stóðu sig vel

„Stelpurnar geta verið og eiga að vera afar stoltar af frammistöðu sinni á mótinu. Þær voru að leika sína fyrstu landsleiki og hafa staðið sig vel, leikið á sannfærandi hátt og aðeins tapað einum leik allt mótið.


Framundan er umspil fyrir A-deild EM í lok nóvember. Við förum af fullum krafti í það og reynum að komast áfram í A-deildina,“ segir Ágúst Þór sem er sannfærður um að í U17 ára liðinu leynist efniviður í framtíðarlið. Efniviðurinn sé svo sannarlega fyrir hendi.

Björt framtíð

„Það er mikil framtíð í liðinu. Breiddin hefur aukist í þessum aldursflokki. Heima er nokkur hópur stúlkna sem bankar á dyrnar. Þess vegna verður spennandi að fylgjast með þessu stelpum á næstu árum. Framtíðin er þeirra,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari U17 ára landsliðs kvenna við handbolta.is í kvöld.

Leikmenn og starfsmenn U17 ára landsliðsins Íslands. Efri röð f.v.: Silja Theodórsdóttir, Guðríður Guðjónsdóttir, Sara Dröfn Richardsdóttir, Lilja Ágústsdóttir, Þóra Björg Stefánsdóttir, Embla Steindórsdóttir, Rakel Oddný Guðmundsdóttir. Inga Dís Jóhannsdóttir, Katrín Anna Ásmundsdóttir, Amelía Dís Einarsdóttir, Ágúst Þór Jóhannsson, Jóhann Ingi Guðmundsson, Dagur Snær Steingrímsson.
Fremri röð f.v.: Thelma Melsted Björgvinsdóttir, Elín Klara Þorkelsdóttir, Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir, Elísa Helga Sigurðardóttir, Ingunn María Brynjarsdóttir, Tinna Sigurrós Traustadóttir, Elísa Elíasdóttir, Brynja Katrín Benediktsdóttir. Mynd/EHF
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -