U17 ára landsliðið í handknattleik karla lék frábærlega gegn heimamönnum Slóvena í dag í þriðju og síðustu umferð riðlakeppni Ólympíudaga Evrópuæskunnar í Maribor. Íslensku piltarnir gerðu sér lítið fyrir og urðu fyrstir til þess að vinna Slóvena og það mjög sannfærandi, 31:27. Staðan var jöfn í hálfleik, 17:17.
„Strákarnir sýndu frábæran karakter. Frammistaðan var ótrúlega góð, taktískt séð, bæði í vörn og sókn,“ sagði Stefán Árnason annar þjálfara liðsins í skilaboðum til handbolta.is.
Vörn og markvarsla
Frábær varnarleikur íslensku piltanna í síðari hálfleik sló leikmenn Slóvena fullkomlega út af laginu. Til viðbótar varði Sigurjón Bragi Atlason markvörður allt hvað af tók, alls 15 skot í síðari hálfleik, 60% markvarsla!
Slóvenar skoruðu aðeins þrjú mörk á fyrstu 19 mínútum síðari hálfleiks. Íslenska liðið náðu mest sex marka forskoti, 26:20. Slóvenum tókst að minnka muninn í tvö mörk, 28:26, þegar fjórar mínútur voru eftir.
Íslensku piltarnir voru hinsvegar vandanum vaxnir, þeir stóðust frekara áhlaup og unnu sannfærandi og sætan fjögurra marka sigur vel studdir af fjölmennum hópi Íslendinga á áhorfendapöllunum.
Sóknarleikurinn var einnig mjög góður og afar yfirvegaður með Akureyringinn Jens Braga Bergþórsson í sannkölluðum ham á línunni. Hann greip allar sendingar og skilaði boltanum nær undantekningalaust í marknet Slóvena.
Blés ekki byrlega í upphafi
Þess ber að geta að Slóvenar byrjuðu leikinn af krafti og skoruðu fimm af fyrstu sex mörkunum. Íslenska liðið lét það ekki slá sig út af laginu heldur vann sig jafnt og þétt inn í leikinn eftir því sem á fyrri hálfleik leið með yfirvegun í sóknarleiknum, en fyrst og síðast með stórbrotnum varnarleik sem fylgt var eftir í síðari hálfleik. Staðan var fyrst jöfn, 11:11, eftir ríflega 20 mínútna leik. Ísland komst fyrst yfir í leiknum, 19:18, á fjórðu mínútu síðari hálfleiks. Slóvenum var ekki hleypt upp á dekk eftir það. Á 43. mínútu var staðan 23:19, Íslandi í vil.
Mörk Íslands: Jens Bragi Bergþórsson 9, Ágúst Guðmundsson 7, Aron Daði Stefánsson 6, Dagur Árni Heimisson 3, Magnús Dagur Jónatansson 3, Stefán Magni Hjartarson 2, Hugi Elmarsson 1.
Varin skot: Sigurjón Bragi Atlason 15/2, Óskar Þórarinsson 5.
A-riðill:
Ungverjaland – Svartfjallaland 39:28
Króatía – Portúgal 33:28
Króatía – Svartfjallaland 42:21
Ungverjaland – Portúgal 37:31
Portúgal – Svartfjallaland 41:19
Ungverjaland – Króatía 34:34
Lokastaðan:
Króatía | 3 | 2 | 1 | 0 | 109:83 | 5 |
Ungverjaland | 3 | 2 | 1 | 0 | 109:93 | 5 |
Portúgal | 3 | 1 | 0 | 2 | 100:89 | 2 |
Svartfj.land | 3 | 0 | 0 | 3 | 68:122 | 0 |
B-riðill:
Slóvenía – Þýskaland 30:28.
Ísland – Noregur 34:32.
Slóvenía – Noregur 40:30.
Þýskaland – Ísland 35:24.
Slóvenía – Ísland 27:31.
Þýskaland – Noregur 35:26.
Lokastaðan:
Þýskaland | 3 | 2 | 0 | 1 | 98:80 | 4 |
Slóvenía | 3 | 2 | 0 | 1 | 97:89 | 4 |
Ísland | 3 | 2 | 0 | 1 | 89:94 | 4 |
Noregur | 3 | 0 | 0 | 3 | 88:109 | 0 |
Ísland hafnar í þriðja sæti vegna þess lökustu markatölunnar í innbyrðis leikjum liðanna þriggja, Þýskalands, Slóveníu og Íslands. Þýskland er þar með níu mörk í plús, Slóvenía mínus tvö og Ísland mínus sjö.