Leikmenn og þjálfarar U18 ára landsliðs karla í handknattleik fá ekki langan tíma til þess að liggja á meltunni eftir að hafa borðað jólasteikina. Að morgni annars dags jóla halda þeir til Merzig í sambandslandinu Saarland í Þýskalandi til þátttöku á alþjóðlegu móti í handknattleik. Fyrsti leikurinn verður 27. desember. Heim verður komið 30. desember. Þátttakan er fyrsti liður í undirbúningi fyrir Evrópumót 18 ára landsliða sem fram fer í ágúst.
„Við höfum tekið þátt í þessu móti frá 1995 að covid ári undanskildu,“ sagði Heimir Ríkarðsson þjálfari U18 ára landsliðsins við handbolta.is.
„Það er flottur hópur sem fer út. Æfingar okkar undanfarna daga gengu mjög vel og ég er spenntur að sjá hvernig okkur gengur,“ sagði Heimir ennfremur en hann var með 25 leikmenn við æfingar. Af þeim fara 16 út.
Markverðir:
Jens Sigurðarson, Val.
Óskar Þórarinsson, KA.
Aðrir leikmenn:
Antoine Óskar Pantano, Gróttu.
Ágúst Guðmundsson, HK.
Dagur Árni Heimisson, KA.
Dagur Leó Fannarsson, Val.
Daníel Montoro, Val.
Garðar Ingi Sindrason, FH.
Harri Halldórsson, Aftureldingu.
Hugi Elmarsson, KA.
Ingvar Dagur Gunnarsson, FH.
Jens Bragi Bergþórsson, KA.
Magnús Dagur Jónatansson, KA.
Marel Baldvinsson, Fram.
Nathan Doku Helgi Asare, ÍR.
Stefán Magni Hjartarson, Aftureldingu.
Átta lið taka þátt í mótinu er þeim skipt niður í tvo riðla. Sjö landslið taka þátt í mótinu auk úrvalsliðs Saarlandshéraðs í Þýskalandi þar sem mótið fer fram. Fyrsti leikur íslenska liðsins á mótinu verður 27. desember við úrvalslið Saarlands. Daginn eftir verður leikið við þýska landsliðið fyrir hádegið og belgíska landsliðið um kvöld. Ekki er leikinn fullur leiktími. Föstudaginn 29. desember verður krossspil á milli riðla fyrri hluta dagsins og barist um sæti síðdegis og um kvöld. U19 ára landsliðið hafnaði í öðru sæti á mótinu á síðasta ári. A-riðill: Þýskaland, Saarland, Belgía, Ísland. B-riðill: Ungverjaland, Sviss, Holland, Slóvenía.