U18 ára landslið kvenna tekur þátt í heimsmeistaramótinu í handknattleik sem fram fer í Kína frá 14. til 25. ágúst í sumar. Alþjóða handknattleikssambandið, IHF, sendi HSÍ boð (wild card) um þáttttöku á mótinu. Boðinu var tekið fegins hendi og þegið með þökkum á skrifstofunnni á Engjaveginum.
Þar með er ljóst að bæði U18 og U20 ára landslið Íslands í handknattleik kvenna standa í stórræðum í sumar með þátttöku á heimsmeistaramótum. Það er stór áfangi fyrir handknattleik kvenna hér á landi og gott merki um þá grósku sem ríkir hér á landi.
U20 ára landsliðið öðlaðist þátttökurétt með frammistöðu sinni á EM í Rúmeníu á síðasta sumri. HM 20 ára landsliða fer fram í Skopje í Norður Makedóníu frá 19. til 30. júní.
U18 ára landsliðið rétt missti af þátttökuréttinum í gegnum Evrópumót 17 ára landsliða sem haldið var í Svartfjallalandi í ágúst. Virtist þar með úti um þátttöku á HM eða allt þar til stjórn IHF ákvað annað boðskort stjórnarinnar (wild card) kæmi í hlut Íslands. Hitt fór til Sviss.
HM U18 ára í Kína í sumar verður annað heimsmeistaramótið í röð sem Ísland verður með á í þessum aldursflokki kvenna. Sumarið 2022 fékk Ísland einnig boðskort á mótið og gerði það svo sannarlega gott. Íslenska liðið hafnaði í áttunda sæti og var aðeins hársbreidd frá sæti í undanúrslitum.
Rakel Dögg Bragadóttir og Sigurjón Friðbjörn Björnsson eru þjálfarar U18 ára landsliðs kvenna.
Ekki hefur fengist svar við því hvenær dregið verður í riðla á heimsmeistaramótunum tveimur. Eitt er þó ljóst; dregið verður fyrr en síðar.