„Framundan er erfitt verkefni sem er afrakstur af mjög góðum árangri okkar í sumar í B-keppni EM í Litáen í sumar. Núna mætum við þremur sterkum liðum sem ég held að við eigum alveg jafna möguleika á að vinna,“ sagði Elín Klara Þorkelsdóttir, einn leikmanna U18 ára landsliðs kvenna í handknattleik í samtali við handbolta.is. Landsliðið hefur leik í dag í undankeppni EM 2023 með þátttöku í fjögurra liða móti í Belgrad í Serbíu. Í boði er einn farseðill í A-keppni Evrópumótsins í þessum aldursflokki.
Fyrsti leikurinn hjá Elínu Klöru og stöllum hennar verður við Slóveníu í dag og verður flautað til leiks klukkan 14.30. Á morgun mætir íslenska liðið Slóvökum og Serbum á fimmtudaginn. Undirbúningur hefur verið góður og allt klárt að hefja leik.
„Þetta verða þrír úrslitaleikir sem við verðum að mæta af fullum krafti í. Við verðum að eiga góða dag. Hver einasti leikur og hvert einasta mark skiptir miklu máli,“ sagði Elín Klara.
Krefjandi og erfitt verkefni
„Þetta verður bara mjög spennandi og mjög gaman að fá þetta tækifæri til þess að komast í A-keppnina,“ sagði Lilja Ágústsdóttir einn leikmanna U18 ára landsliðsins í samtali við handbolta.is um undankeppnina sem stendur fyrir dyrum hjá henni og stöllum.
„Þetta er mjög krefjandi og erfitt verkefni sem við ætlum að gera sem best úr. Ég reikna með að þetta séu mjög álíka lið að getu og okkar lið. Við eigum þar með að eiga möguleika í þessu móti ef við náum að leika okkar besta leik í hvert sinn,“ sagði Lilja sem var í U17 ára landsliðinu sem hafnaði í öðru sæti í B-keppni Evrópumótsins í sumar.
Líst bara mjög vel á
„Við höfum allar æft mjög vel og erum komnar með meiri reynslu en áður. Við fengum góða reynslu í sumar og síðan mættum við Dönum tvisvar í október. Um leið þekkjum við betur inn á hverja aðra. Mér líst bara mjög vel á það sem er framundan,“ sagði Lilja Ágústsdóttir leikmaður U18 ára landsliðs kvenna.
Handbolti.is verður með beina texta- og stöðuppfærslu frá leiknum við Slóvena í dag klukkan 14.30. Eins verður hægt að fylgjast með útsendingu frá leiknum á ehftv.com.