- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

U19piltar: „Voru hreint magnaðir í 45 mínútur“

Heimir Ríkarðsson, þjálfari, skipar sínum mönnum fyrir í leik í fyrra. Mynd/EHF
- Auglýsing -

Piltarnir í U19 ára landsliði karla í handknattleik fylgdu eftir góðum sigri sínum á Hollendingum í gær með því að vinna Þjóðverja í kvöld, 27:21, á æfingamóti í Hansehalle í Lübeck. Þjóðverjar voru tveimur mörkum yfir í hálfleik, 14:12. Þeir sáu hinsvegar ekki til sólar í síðari hálfleik. Íslensku piltarnir fóru á kostum, jafnt í vörn sem sókn.

Bara eitt lið á vellinum

„Strákarnir voru hreint magnaðir í 45 mínútur í kvöld. Í síðari hálfleik var bara eitt lið á vellinum,“ sagði Heimir Ríkarðsson annar þjálfara íslenska liðsins eldhress þegar handbolti.is sló á þráðinn til hans í kvöld.

Flestir vegir færir

„Vörnin var frábær hjá okkur. Menn sjá nú hvað hægt er að gera þegar varnarleikurinn er í lagi. Þá eru okkur flestir vegir færir,“ sagði Heimir og bætti við að mikil vinna hafi verið lögð í varnarleikinn við undirbúning liðsins síðustu vikur vegna þess að hann hafi verið Akkilesarhæll þessa hóps, m.a. á EM fyrir ári.

Erfitt í upphafi

Eins og gegn Hollendingum í gær þá fór íslenska liðið ekki vel af stað. Varnarleikurinn gekk ekki sem skildi og nýting sóknarleiksins var ekki eins og best var á kosið. Mestur varð munurinn fjögur mörk, Þjóðverjum í vil.

„Við tókum gott leikhlé og stilltum af varnarleikinn sem skilaði sér strax. Við héldum áfram að leika 6/0 en gerðum áherslubreytingar sem skiluðu sér strax. Rétt fyrir lok fyrri hálfleiks var forskot Þjóðverja komið niður í eitt mark, 13:12. Þeir skoruðu svo síðasta markið og voru tveimur yfir í hálfleik,“ sagði Heimir.

Skildir eftir í rykinu

Á fjórðu mínútu síðari hálfleiks jafnaði íslenska liðið metin í fyrsta sinn, 15:15. Fjórum mínútum síðar náðu liðið yfirhöndinni og lét hana ekki af hendi eftir það, heldur skildi þýska liðið eftir í rykinu.

„Síðari hálfleikur var hreint stórkostlegur,“ sagði Heimir og lauk lofsorði á alla leikmenn liðsins en eins og í gær var reynt eftir megni að dreifa álaginu og fá um leið framlag frá sem flestum til þess að styrkja breiddina í hópnum.

Allir skiluðu framlagi

„Allir voru strákarnir að standa sig mjög vel. Allir skiluðu sínu sem var mjög jákvætt og skiptir afar miklu máli,“ sagði Heimir sem ásamt Einari Jónssyni þjálfar liðið sem tekur þátt í heimsmeistaramótinu sem hefst í Króatíu 2. ágúst.

Æfingaleikur á sunnudag

Ísland vann þar með þriggja liða mótið. Áður en haldið verður heim á ný á mánudaginn verður leikinn æfingaleikur við þýska liðið á sunnudaginn.

Veikur í gær – markahæstur í kvöld

Össur Haraldsson var veikur í gær og tók ekki þátt í leiknum við Hollendinga. Hann mætti galvaskur til leiks í kvöld og varð markahæstur.

Tveir meiddust

Elmar Erlingsson fékk högg á mjöðmina eftir nokkrar mínútur og var hvíldur eftir það. Atli Steinn Arnarsson meiddist á hendi eftir 20 mínútur í kvöld. Heimir vonast til að meiðsli Elmars og Atla séu ekki alvarleg.

Mörk Íslands: Össur Haraldsson 8, Reynir Þór Stefánsson 6, Skarphéðinn Ívar Einarsson 4, Eiður Rafn Valsson 4, Hans Jörgen Ólafsson 1, Ívar Bessi Viðarsson 1, Daníel Örn Guðmundsson 1, Birkir Snær Steinsson 1, Elmar Erlingsson 1.
Varin skot: Ísak Steinsson 12, Breki Hrafn Árnason 3.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -