- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Umsvifin hafa aldrei verið meiri – tveir þriðju tekna HSÍ er sjálfsaflafé

Íslenska karlalansliðið á HM í upphafi þessar árs. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Umsvif Handknattleikssambands Íslands (HSÍ) hafa aldrei verið meiri en á síðasta ári, hvort sem litið er til veltu eða í umfangi landsliðanna. Það kom skýrt fram í ársskýrslu HSÍ sem lögð var fram á ársþingi sambandsins 30. apríl.

Sex landslið tóku þátt í stórmótum á síðasta ári og víst er að þau verða ekki færri á þessu ári. Velta HSÍ var 411 milljónir króna, þar af var afgangur af rekstrinum 42 milljónir króna.

Róbert Geir Gíslason framkvæmdastjóri HSÍ segir í samtali við handbolta.is mikinn hagnað skýrast af svokölluðum covid styrk frá ríkinu upp á um 54 milljónir vegna útgjalda sökum heimsfaraldursins á árunum 2020, 2021 og 2022. Vegur hagnaðurinn upp tap sem varð m.a. á árinu 2021 vegna mikilla útgjalda vegna heimsfaraldurs covid 19.

Í fjárhagsáætlun ársins 2023 er gert ráð fyrir að reksturinn verði í járnum.

Betur má ef duga skal

Velta HSÍ jókst á árinu 2022 um ríflega 90 milljónir frá 2021.

„Markmiðið er ekki endilega að skila miklum hagnaði enda er íþróttahreyfingin ekki rekin sem hagnaðardrifið fyrirtæki. Við viljum á hinn bóginn eiga borð fyrir báru til að geta mætt óvæntum útgjöldum eins og dæmin sanna frá síðustu árum. Einnig er það markmið okkar að auka hlutdeild HSÍ í kostnaði yngri landsliða vegna þátttöku á stórmótum. Við höfum bætt jafnt og þétt í á síðustu árum en betur má ef duga skal.

Vöxturinn hjá okkur er góður og reksturinn mjög góður eins og tölurnar sýna,“ segir Róbert Geir sem hefur verið framkvæmdastjóri HSÍ frá 2017.

Guðmundur B. Ólafsson formaður HSÍ t.h. ásamt forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni á landsliðsleik í Laugardalshöll í mars. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
Jón Viðar Stefánsson gaf ekki áfram kost á sér í stjórn HSÍ á þinginu 30. apríl. Í hans stað var Davíð Lúther Sigurðsson kjörinn. Davíð tekur við sem formaður markaðsnefndar HSÍ af Jóni Viðari sem áfram mun sitja í nefndinni.
Guðmundur B. Ólafsson var endurkjörinn formaður HSÍ til tveggja ára, einnig Reynir Stefánsson varaformaður, Inga Lilja Lárusdóttir formaður fræðslu- og útbreiðslunefndar og Páll Þórólfsson formaður landsliðsnefnda karla. Reynir, Davíð Lúther, Inga Lilja og Páll voru kjörin til tveggja ára eins og formaður.

Landsliðin fyrirferðamest

Um 63% af rekstri HSÍ var vegna landsliða, mótakostnaður var 10%, laun og gjöld þeim tengd 18%, skrifstofukostnaður 5% og annar kostnaður 4%.

Stefnan er að kvennalandsliðið taki þátt í EM 2024 sem fram er í Austurríki, Ungverjalandi og Sviss. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Tveir þriðju sjálfsaflafé

Nærri þriðjungur tekna HSÍ, 32%, á síðasta ári HSÍ kom frá ÍSÍ (Afreksjóði) og Lóttó. Tveir þriðju tekna voru sjálfsaflafé. Róbert Geir segir að sé árið 2022 borið saman við 2019, síðasta ári fyrir heimsfaraldurinn, þá hafi sjálfsaflafé verið hærra sem hlutfall af veltu á síðasta ári en 2019. Þess má til fróðleiks geta að velta HSÍ árið 2019 var um 290 milljónir króna.

„Okkur hefur tekist að halda vel á spilunum þegar kemur að samstarfsaðilum og verið lánsamir með öflugan hóp styrktaraðila og fyrirtækja. Einnig hefur orðið aukning frá Afrekssjóði á síðustu árum. Hinsvegar var hlutfall af styrkjum frá ÍSÍ verið svipað ár frá ári þrátt fyrir veltuaukningu,“ sagði Róbert Geir.

Helmingur stjórnarmanna var kjörinn til tveggja ára fyrir fyrir ári. Þau eru Arnar Þorkelsson, gjaldkeri, Guðríður Guðjónsdóttir, formaður landsliðsnefndar kvenna, Kristín Þórðardóttir, formaður mótanefndar og Kristján Gaukur Kristjánsson formaður dómaranefndar.
Varamennirnir Alfreð Örn Finnsson, Hrafnhildur Ósk Skúladóttir og Ragnar Lárus Kristjánsson hlutu einnig brautargengi til setu næsta árið. Varamenn eru kjörnir til eins árs í senn.

Stærsta landsliðsár til þessa

Um 63% af útgjöldum HSÍ á árinu 2022 var vegna landsliða, jafnt þeirra eldri sem yngri. „Við höfum lagt meira í landsliðin með hverju ári sem líður. Árið 2022 var okkar stærsta ár í landsliðshaldi. Kostnaður vegna þeirra var 232 milljónir króna. Það er fyrir utan laun og launatengd gjöld starfsmanna á skrifstofunni sem vinna að verulegum hluta til við afreksmál.“

Leikmenn U18 ára landsliðs á HM í Skopje á síðasta sumri. Liðið hafnaði í áttunda sæti sem fleytti því áfram inn í lokakeppni EM í sumar. Um leið dró U19 ára landsliðið U17 ára landsliðið með í lokakeppni. Mynd/Brynja

Bilið hefur minnkað

Róbert segir ljóst að rekstur karlalandsliðsins hafi verið meiri en kvennalandsliðsins á síðustu árum. „Það skýrist fyrst og fremsta af þátttöku karlalandsliðsins á árlegum stórmótum meðan kvennalandsliðið hefur ekki náð inn á þau. Bilið milli landsliðanna hefur minnkað. Við höfum aukið í verulega kvennamegin og erum þar með metnaðarfulla afreksstefnu til framtíðar. Meðal annars hefur stefnan verið sett á þátttöku á EM 2024 þegar þátttökuliðum verður fjölgað,“ segir Róbert og bætir við.

Horft til HM undir árslok

„Umfang landsliðanna hefur vaxið á síðustu árum, ekki síst hjá yngri landsliðunum. Á síðasta ári voru sex landslið okkar á stórmótum og ég fæ ekki betur séð en yfirstandandi ár verði enn stærra,“ sagði Róbert og bætti við að unnið væri m.a. í að afla kvennalandsliðinu þátttöku á HM í desember.

Róbert Geir Gíslason framkvæmdastjóri HSÍ fyrir miðri mynd. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Fylgja málinu eftir

Stjórn Alþjóða handknattleikssambandsins hefur undir höndum tvö boðskort á mótið og hefur HSÍ óskað eftir að annað þeirra falli Íslandi í skaut. Hvert boðskortin verða send liggur ekki fyrir fyrr en í sumar, rétt áður en dregið verður í riðla. „Við munum fylgja þessu máli eftir þegar kemur fram í lok þessa mánaðar og gera það af fullum þunga.“

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -