- Auglýsing -
- Auglýsing -

Undankeppni EM ofan í HM

Ljósmynd/Ívar
- Auglýsing -

Íslenska karlalandsliðið í handknattleik leikur tvo leiki í undankeppni EM2022 aðeins örfáum dögum áður en flautað verður til leiks á heimsmeistaramótinu, HM, í Egyptalandi 14. janúar á næsta ári. Samkvæmt leikjaskipulagi sem Handknattleikssamband Evrópu, EHF, hefur gefið út er ráðgert að íslenska landsliðið leiki á útivelli við landslið Portúgals í undankeppni EM 6. janúar og að liðin leiði saman hesta sína að nýju á Íslandi þremur dögum síðari. Lið beggja þjóða verða síðan að vera mætt til Egyptalands ekki síðar en 12. janúar. 

Það er nýstárlegt að leika í undankeppni EM ofan í undirbúning fyrir lokakeppni HM. Ástæðan er hinsvegar sú að vegna fyrirhugaðrar forkeppni Ólympíuleikanna sem fram á að fara í vor verður að setja tvær umferðir í undankeppni EM2022 í byrjun janúar hjá þeim landsliðum sem eiga að taka þátt í forkeppninni. 

Forkeppni Ólympíuleikanna er áætluð 12. til 14. mars 2021 og þar verður landslið Portúgals í eldlínunni eins og lið Frakklands, Þýskalands, Noregs, Slóveníu og Svíþjóðar. 

Byrjað í Höllinni

Ráðgert er að íslenska landsliðið hefji undankeppni EM2022 með viðureign gegn Litháen 4. nóvember í Laugardalshöll. Eftir leikinn verður haldið til Ísraels þar sem glímt verður við lið heimamanna  8. nóvember.

Eftir leikina nóvember taka við viðureignirnar við Portúgal í janúar sem fyrr er getið. Íslenska liðið situr yfir í undankeppninni í mars en mætir galvaskt til leiks í lok apríl þegar reiknað er með útileik við Litháen 29. apríl. Lokaleikur undankeppninnar verður, gangi allt eftir, í Laugardalshöll 2. maí með leik við landslið Ísraels.

Tvö efstu lið hvers riðils undankeppninnar, en þeir eru átta, tryggja sér farseðil á EM 2022 sem fram fer í Ungverjalandi og Slóvakíu í janúar 2022. Eins fara fjögur af átta liðum sem hafna í þriðja sæti riðlanna í lokakeppnina.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -