- Auglýsing -
- Auglýsing -

Undrabati og Barcelona í úrslit í tólfta sinn

Aron Pálmarsson hafnaði í þriðja sæti í kjöri íþróttamanns ársins 2020. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Barcelona leikur í tólfta sinn til úrslita í Meistaradeild karla í handknattleik annað kvöld gegn annað hvort THW Kiel eða Veszprém. Það varð ljóst eftir að Aron Pálmarsson og félagar unnu franska meistaraliðið PSG örugglega í undanúrslitum í kvöld, 37:32, í Lanxess-Arena í Köln. Af ellefu úrslitaleikjum í keppninni til þessa hefur Barcelona unnið í átta skipti.

Aron lék meira og minna allan leikinn fyrir Barcelona-liðið. Hann virtist ekki kenna sér meiðsla en bólga í hnéskeljarsin hefur hrjáð hann í rúma viku. Annað hvort hefur hann hlotið undraskjótan bata yfir jóladagana eða verið sprautaður í sinina fyrir leikinn.


Aron tók þátt í leiknum frá upphafi og setti strax mark á hann með fyrsta marki leiksins fyrir Barcelona sem náði tökum á leiknum þegar leið á fyrri hálfleik. Ekki síst munaði miklu um stórleik danska markvarðarins Kevin Möller sem leysti Gonzales Peres de Várgas af nokkuð snemma leik. Þá hafði Vargas ekki náð sér á strik. Barcelona var fjórum mörkum yfir í hálfleik, 18:14.


Fljótlega í síðari hálfleik var ljóst að PSG ætti fá svör við leiftrandi leik Barcelona sem ekki hefur tapað leik síðan í september 2019.

Xavier Pascual þjálfari Barcelona getur stýrt liðinu til sigur í þriðja sinn í Meistaradeildinni. Mynd/EPA


Aron var næst markahæstur hjá Barcelona með sex mörk. Einnig átti hann þrjár stoðsendingar og lék hreint út sagt frábærlega. Frakkinn Dika Mem var markhæstur hjá Katalóníuliðinu með átta mörk. Ludovic Fabregas og Blanz Janc skoruðu fimm mörk hvor.


Dylan Nahi var markahæstur hjá PSG með níu mörk. Daninn Mikkel Hansen var næstur með sjö mörk.

Með þátttöku sinni í leiknum setti Aron met. Hann er nú sá handknattleiksmaður sem oftast hefur leikið til undanúrslita í Meistaradeild Evrópu.


PSG hefur fjórum sinnum komist í undanúrslit Meistaradeildarinnar og aldrei unnið keppina. Liðið hefur einu sinni hafnaði í öðru sæti, 2017, og tvisvar í þriðja sæti 2016 og 2018. Í ár verður annað hvort þriðja eða fjórða sætið hlutskipti stórliðsins.
Kiel og Veszprém mætast í undanúrslitum síðari í kvöld. Sigurliðið mætir Barcelona í úrslitaleik klukkan 19.30 annað kvöld.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -