Við fyrsta hanagal í morgun fór fjölmennur hópur frá handknattleiksdeild Selfoss utan til keppni á Norden Cup-mótinu sem fram fer næstu daga í Gautaborg. Um er að ræða þrjú lið frá Selfossi, stelpur fæddar 2011 og strákar fæddir 2010 og 2011. Keppni hefst á morgun og tekur enda á mánudaginn, 30. desember.
Eftir talsverða ferð frá Selfossi til Keflavíkur var flogið til kóngsins Kaupmannahafnar þar sem áætlunarbifreið beið hópsins og flutti til Gautaborgar.
Á Norden Cup reyna með sér nokkur af öflugustu liðum yngri flokka Svíþjóðar, Danmerkur, Noregs, Finnlands og Íslands. Eftir því sem fram kemur á heimasíðu mótsins er reiknað með allt að 2.000 keppendum til Gautaborgar.
HK sendir til mótsins eitt lið, skipað stúlkum fæddar 2010. FH er einnig með eitt lið sem í eru drengir fæddir 2011.