Ungverjar tóku íslenska landsliðið í kennslustund fyrir fram liðlega 12 þúsund áhorfendur í síðasta leik C-riðils á Evrópumótinu í handknattleik í München í kvöld, lokatölur 33:25. Þeir réðu lögum og lofum allan síðari hálfleikinn eftir að hafa verið tveimur mörkum yfir í hálfleik, 15:13. Eftir slakan sóknarleik í fyrri hálfleik má segja að botninn hafi jafnt og þétt hrunið undan íslenska landsliðinu í síðari hálfleik. Viggó Kristjánsson markahæsti leikmaður íslenska liðsins sagði við handbolta.is eftir leikinn að liðið hafi verið rassskellt. Það eru orð að sönnu.
Sennilega var þetta slakasti leikur íslenska landsliðsins á stórmóti í handknattleik frá tapinu fyrir Ungverjum, 24:18, á EM 2020 í Malmö.
Fyrir leikinn var íslenska landsliðið komið áfram í milliriðli í framhaldi af sigri Svartfellinga við Serba fyrr í kvöld. Leikurinn snerist hinsvegar um stigin tvö í milliriðilinn sem eru svo mikilvæg. Stigin tvö taka Ungverjar með sér í milliriðilinn en Ísland verður með tvær hendur tómar þegar keppni hefst á fimmtudaginn. Óvíst er að stigin verði mikið fleiri ef frammistaðan verður áfram eins og hún var í kvöld.
Sóknarleikurinn gekk ekki eins og best verður á kosið í fyrri hálfleik. Alltof mikið var um mistök, sendingar rötuðu ekki manna á milli, sóknarbrot auk þess sem tvö vítaköst fór forgörðum. Niðurstaðan var aðeins 13 íslensk mörk í fyrri hálfleik sem er langt frá að teljast viðunandi í nútíma handknattleik. Uppstilltur sóknarleikur var þungur eins og stundum áður í mótinu.
Varnarleikurinn var góður en því miður vantaði upp á markvörslu. Viktor Gísli og Björgvin Páll náðu sér lítt á strik. Ísland komst yfir, 5:4. Eftir að hafa jafnað, 7:7, skoruðu Ungverjar þrjú mörk í röð. Íslenska liðið svaraði með þremur mörkum. Ungverska liðið náði mest fjögurra marka forskoti, 14:10, áður en kapp hljóp í leikmenn síðustu tvær mínúturnar og munurinn var minnkaður í eitt mark, 13:14. Ungverjar átti síðasta orðið í hálfleiknum.
Staðan um miðjan síðari hálfleik var 25:18, Ungverjum í vil. Jafnt og þétt molnaði undan íslenska liðinu eftir því sem á hálfleikinn leið. Ungverjar náðu mest níu marka forskoti þegar innan við tíu mínútur voru til leiksloka.
Varnarleikurinn var viðunandi í fyrri hálfleik og á kafla í síðari hálfleik. Sóknarleikurinn var hinsvegar óviðunandi auk þess sem alltof mörg dauðafæri fóru forgörðum til viðbótar við fjölda mistaka af ýmsu tagi. Nokkuð sem er óboðlegt í kappleik á stórmóti.
Mörk Íslands: Viggó Kristjánsson 8/4, Ómar Ingi Magnússon 5/2, Elliði Snær Viðarsson 3, Aron Pálmarsson 3, Sigvaldi Björn Guðjónsson 2, Bjarki Már Elísson 2, Janus Daði Smárason 1, Elvar Örn Jónsson 1.
Varin skot: Viktor Gísli Hallgrímsson 9, 28,1% – Björgvin Páll Gústavsson 2, 16,7%.
Mörk Ungverjalands: Zoltán Szita 5, Egon Hanusz 5, Dominik Mathe 4, Gergo Fazekas 4, Gábor Ancsin 4, Miklós Rosta 4, Bence Imre 4, Bendegúz Bóka 1, Patrik Ligetvári 1, Máté Lékai 1.
Varin skot: Kristóf Laszló Palasics 11, 34,3%.
Handbolti.is var í Ólympíuhöllinni og fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.