- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ungverjar voru sterkari í Érd og fara á HM

Markahæstu leikmenn liðanna, Petra Vamos hjá Ungverjum Thea Imani Sturludóttir eigast við. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Draumur íslenska landsliðsins í handknatteik kvenna um sæti á heimsmeistaramótinu undir lok þessa árs er svo að segja úr sögunni eftir sex marka tap fyrir Ungverjum í Érd í dag, 34:28. Samanlagt unnu Ungverjar með tíu marka mun í leikjunum tveimur, 59:49, og öðlast þar með sæti á HM. Þeir voru þremur mörkum yfir í hálfleik, 17:14.

Geta borið höfuðið hátt

Íslensku leikmennirnir geta borið höfuðið hátt þrátt fyrir allt. Þeir lögðu allt í leikinn og voru í hörkuleik í 26 mínútur í síðari hálfleik. Sannarlega tókst íslenska liðinu að velgja Ungverjum undir uggum og minnka muninn í tvígang niður í eitt mark, 20:19 og 26:25, í síðari hálfleik. Í bæði skiptin gafst kostur á að jafna metin. Allt kom fyrir ekki. Á allra síðustu mínútunum leystist leikurinn aðeins upp og ungverska liðið vann óþarflega stóran sigur.

Kaflaskipt – góður lokasprettur

Fyrri hálfleikur var afar kaflaskiptur. Forskot Ungverja sveiflaðist frá þremur og upp í átta mörk. Frábær lokakafli hálfleiksins hjá íslenska liðinu með fimm mörkum í röð án þess að Ungverjum lánaðist að svara opnaði möguleika þegar gengið var til búningsherbergja, 17:14.

Steinunn Björnsdóttir skoraði fimm mörk dag. Hér er hún í hörðum slag við varnarmenn ungverska landsliðsins. Mynd/EPA

Rautt spjald

Katrin Klujber besti leikmaður ungverska liðsins í fyrri hálfleik fékk rautt spjald fyrir að skjóta boltanum í höfuð Elínar Jónu Þorsteinsdóttur markvarðar þegar 45 sekúndur voru eftir af leiktíma fyrri hálfleiks. Hún kom ekkert meira við sögu.

Sandra Erlingsdóttir fékk á tíðum óblíðar móttökur hjá ungversku varnarmönnunum. Mynd/EPA

Hægara sagt en gert

Sem fyrr segir var síðari hálfleikur mjög góður hjá íslenska liðinu nær allan tímann. Það er hægara sagt en gert að vera átta mörkum undir á erfiðum útivelli og komast í jafna stöðu. Það tókst íslenska liðinu engu að síður með frábærum lokakafla í fyrri hálfleik og flottum 26 mínútum í síðari hálfleik.

Peysutog – ekkert dæmt

Í stöðunni 20:19 fyrir Ungverja fékk íslenska liðið hraðaupphlaup. Greinilega var togað í treyjuna hjá Sunnu Jónsdóttur þegar hún var í þann mund að nálgast sendinu Elínar Jónu fram völlinn. Ekkert var dæmt og hraðaupphlaupið rann fyrir vikið út í sandinn. Á þessum tíma voru 10 mínútur liðnar af síðari hálfleik. Ef tekist hefði að jafna metin þá er aldrei að vita hvað hefði gerst. A.m.k. var kurr kominn í ungverska liðið á þessu tíma enda gekk því flest í mót.

Andrea Jacobsen stöðvar Anna Kukely í leiknum í Érd. Mynd/EPA

Áfram veginn

Íslenska landsliðið er nálgast takmarkið. Það færist nær þeim sem eru betri. Ekki eru nema fjögur eða fimm ár síðan útileikir eins og þessi töpuðust með miklum mun og voru kannski búnir strax í fyrri hálfleik. Það er liðin tíð. Hvert framfaraskref kostar vinnu og þolinmæði. Þolinmæði er dyggð.

Ekki er öll nótt úti

Nú er einn möguleiki eftir um sæti á HM – þ.e. að stjórn Alþjóða handknattleikssambandsins útdeili öðru “wild card”, sérstökum keppnisrétti til Íslands. Stjórnin hefur tvö boðsbréf á mótið. Þeim verður væntanlega útdeilt í sumar, áður en dregið verður í riðla fyrir lokakeppnina sem fram fer í Danmörku, Noregi og Svíþjóð frá 28. nóvember til 17. desember. Möguleikinn á að hljóta boðskortið er kannski ekki mikill en það má láta sig dreyma.


Næst hjá íslenska landsliðinu í er undankeppni EM 2024. Dregið verður í riðla á sumardaginn fyrsta.


Mörk Íslands: Thea Imani Sturludóttir 8, Steinunn Björnsdóttir 5, Þórey Anna Ásgeirsdóttir 5/4, Sandra Erlingsdóttir 3, Perla Ruth Albertsdóttir 3, Þórey Rósa Stefánsdóttir 2, Hrafnhildur Hanna Þrastarsdóttir 1, Rut Arnfjörð Jónsdóttir 1.
Varin skot: Elín Jóna Þorsteinsdóttir 7, 23,3% – Hafdís Renötudóttir 1, 8%.

Mörk Ungverja: Petra Vamos 8, Katrin Klujber 7, Csenge Kuczora 6, Nadine Schatzl 3, Kinga Debreczeni-Klivinyi 3, Viktória Gyori-Lukács 3, Petra Füzi-Tóvizi 2, Anna Kukely 1, Greta Juhasz 1.
Varin skot: Kinga Janurik 2, 29% – Blanka Bíró 6, 21%.

Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -