- Auglýsing -
- Auglýsing -

Upp á dag eru 12 ár liðin frá leiknum í Santos

Leikmenn landsliðs Angóla í leiknum við Frakka á fimmtudagskvöld. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Upp á dag eru 12 ár síðan landslið Íslands og Angóla mættust síðast á heimsmeistaramóti kvenna í handknattleik í fyrsta og eina skiptið til þessa. Leikurinn var í annarri umferð riðlakeppni mótsins og fór fram í Arena Santos í Brasilíu 4. desember 2011 klukkan 19.30 að staðartíma.


Angóla var með yfirhöndina í leiknum frá upphafi til enda þótt íslenska liðið hafði aldrei verið langt undan. Lokatölur, 28:24. Staðan í hálfleik var 15:12. Eftir því sem næst verður komist var þetta fyrsta viðureign A-landsliða Íslands og Angóla í handknattleik, hvort heldur í kvenna- eða karlaflokki.

Sami þjálfari og þrír leikmenn

Þrír leikmenn landsliðs Angóla í dag tóku þátt í leiknum við íslenska landsliðið í Santos fyrir 12 árum: Isabel Eveleize Guialo, Natalia Maria Bernardo og Azenaide Danila Carlos. Tvær þær síðarnefndu skoruðu samtals fimm mörk í leiknum.

Til viðbótar er Vivaldo Francisco Euduardo ennþá þjálfari landsliðs Angóla en hann var aðeins 25 ára gamall á HM í Brasilíu fyrir 12 árum þegar Angóla hafnaði í 8. sæti þegar mótið var gert upp. Ísland hreppti 12. sæti en þátttökulið voru 24 en eru 32 núna.

Þórey, Ágúst og Þorbjörg

Þórey Rósa Stefánsdóttir er sú eina úr leiknum frá 2011 sem leikur með í dag. Hún skoraði tvö mörk.

Til viðbótar var Ágúst Þór Jóhannsson núverandi aðstoðarþjálfari þá landsliðsþjálfari Íslands. Þorbjörg Jóhanna Gunnarsdóttir liðsstjóri er auðvitað á sínum stað eins og í Santos 4. desember 2011.

Viðureign Íslands og Angóla hefst klukkan 17 í dag og verður m.a. hægt að fylgjast með henni í textalýsingu á handbolti.is. Sigurliðið tekur sæti í milliriðlakeppni HM en tapliðið leikur um forsetabikarinn, sæti 25 til 32.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -