- Auglýsing -
Síðustu aðgöngumiðarnir eru seldir á landsleik Íslands og Ísraels í undankeppni Evrópumóts karla í handknattleik sem fram fer á Ásvöllum annað kvöld og hefst klukkan 19.45. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Handknattleikssambandi Íslands nú síðdegis.
„Rétt í þessu seldust síðustu miðarnir á leikinn og verður því eins og að var stefnt troðfullt hús af stuðningsmönnum Íslands á leiknum. Áhuginn kemur ekki á óvart eftir frábært gengi landsliðsins á EM í janúar og að uppselt var á síðasta heimaleik strákanna okkar apríl,“ segir orðrétt í tilkynningunni.
Ljóst er að hægt hefði verið að selja mikið fleiri aðgöngumiða ef á boðstólum væri stærra keppnishús. Eins og komið hefur margsinnis fram hafa endurbætur á Laugardalshöllinni á síðustu nærri tveimur árum gengið á afturlöppunum. Þar með er ekki mögulegt að leika landsleiki í hinni 57 ára gömlu þjóðarhöll.
Fyrir þá sem ekki eiga miða á landsleikinn annað kvöld er rétt að minna á að leikurinn verður í beinni útsendingu á RÚV auk þess sem handbolti.is mun ekki slá slöku við textalýsingu fyrir þá sem ekki hafa tök á fylgjast með í sjónvarpsviðtækjum.
- Auglýsing -