- Auglýsing -
- Auglýsing -

Útgjöld og tekjutap

Það hefur verið tómlegt á heimaleikjum hjá Luc Abalo og félögum í Elverum á heimaleikjum tímabilsins. Útgjöld og kostnaður hafa hinsvegar rokið upp úr öllu valdi. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Norska liðið Elverum er eitt sextán liða sem tekur þátt í Meistaradeild karla í handknattleik á þessari leiktíð. Á undanförum árum hefur þátttaka liðsins í deildinni fært því talsverðar tekjur þótt vissulega fylgi þátttökunni einnig mikil útgjöld. Vegna kórónuveirunnar hefur yfirstandandi keppnistímabil verið Elverum sérlega erfitt eins og fleiri íþróttafélögum. Nú fylgja þátttöku í Meistaradeild ekkert nema útgjöld en tekjurnar en nánast engar. Nýir útgjaldaliðir hafa meira að segja bæst við.


Hér eru nokkur atriði sem má nefna.
Fjórar milljónir norskra króna, jafnvirði 61 milljónar íslenskra króna, kostar að standa straum að kórónuveiruprófum fyrir leikmenn, þjálfara og aðstoðarmenn á keppnistímabilinu. Enginn fær að taka þátt í leik í Meistaradeild eða í norsku úrvalsdeildinni nema að mælast hreinn a.m.k. 48 tímum fyrir leik.

Öll sýni verður að senda með hraðsendingu til Óslóar til rannsóknar.


Félagið fékk inn 3,2 milljónir norskra króna í tekjur af tveimur stórleikjum í Meistaradeildinni sem Elverum lék í stóru íþróttahöllinni í Lillehammer í fyrra. Það jafngildir um 49 milljónum íslenskra króna. Alls seldust 25.800 aðgöngumiðar á leikina tvo sem voru gegn PSG og Flensburg.

Fyrir þá heimaleiki sem þegar eru að baki hefur Elverum þurft að takast á við ýmiskonar útgjöld vegna krafna sem gerðar hafa verið. Meðal þeirra er að hafa sérstaka lyftingaaðstöðu fyrir gestaliðin. Til að sú aðstaða og þau tæki sem í henni eru standist kröfur hefur orðið til mikill kostnaður sem hleypur á háum upphæðum.


Ekkert verður af heimaleik Elverum við Meshkov Brest frá Hvíta-Rússlandi sem fram átti að fara á fimmtudaginn. Leiknum var slegið á frest um óákveðinn tíma þar sem ekki var gefin undanþága vegna leikmanna Brest. Þeir hefðu þurft að koma til Noregs tíu dögum fyrir leikinn til að uppfylla kröfur norskra sóttvarnayfirvalda.


Norska handknattleikssambandið og norska ríkið hafa að hluta til hlaupið undir bagga með félaginu við að standa straum af útgjöldum. Tekjutapið er hinsvegar annar handleggur.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -