- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Útlitið var ekki gott um tíma

Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari Vals leggur á ráðin. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

„Við sýndum gríðarlegan karakter og seiglu með því að koma okkur inn í leikinn á lokakaflanum því útlitið var ekki gott um tíma,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari Vals yfirvegaður, í samtali við handbolta.is í kvöld eftir eins marks sigur deildarmeistaranna á Haukum, 28:27, í fyrsta úrslitaleiknum um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik kvenna á Hlíðarenda. Valur var fjórum mörkum undir, 24:20, 13 mínútum fyrir leikslok þegar Ágúst Þór tók þriðja og síðasta leikhlé Vals.

Skemmtilegur leikur

„Okkur tókst að ná mjög góðum kafla eftir leikhléið. Fram að því höfðum við reynt að gera breytingar á vörninni sem ekki skiluðu tilskyldum árangri. Um síðir tókst okkur að þétta aðeins vörnina sem skilaði sér,“ sagði Ágúst Þór sem var ánægður með leikinn, heilt yfir. Hraðinn var mikill af hálfu beggja liða. „Þetta var skemmtilegur leikur eins og fyrri viðureignir liðanna á tímabilinu.“

„Að því sögðu þá finnst mér við eiga talsvert inni, meðal annars í vörninni, nokkuð sem við ætluðum að leysa betur. Aðalatriðið er hinsvegar að við náðum forystu í einvíginu og með þá staðreynd er ég gríðarlega ánægður.

Vorum í vandræðum

Næsta skref er að leggjast yfir þennan leik og útfæra frammistöðu okkar betur. Við vorum í vandræðum með að opna vörn Hauka auk þess sem Magga [Margrét Einarsdóttir markvörður Hauka] náði sér vel á strik í síðari hálfleik. Við verðum að leika betur í næsta leik, á heimavelli Hauka á sunnudaginn, til þess að krækja í annan sigur,“ sagði Ágúst Þór.

Spennustigið var ekki rétt

Spurður hvort Valsliðið megi teljast lánsamt að hafa unnið svaraði Ágúst: „Já og nei. Við vorum fjórum mörkum undir þegar korter var eftir. Ég hafði alltaf trú á að við gætum komið til baka og snúið leiknum okkur í hag. Spennustigið var bara ekki rétt hjá okkur. Nú verðum við að nýta tímann vel fram að næstu viðureign. Haukar eru með vel mannað lið og skipulagt. Við verðum að ná betri frammistöðu á sunnudaginn til að vinna á Ásvöllum,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari deildarmeistara Vals eftir 22. sigur liðsins í röð Olísdeildinni og Poweradebikarnum.

Önnur viðureign Hauka og Vals hefst klukkan 18 á sunnudaginn á Ásvöllum, heimavelli Hauka.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -