Íslandsmeistarar Vals í handknattleik kvenna fóru til Spánar í morgun þar sem fyrir dyrum stendur fyrri viðureignin við spænska liðið Málaga Costa del Sol í 16-liða úrslitum Evrópubikarkeppninnar. Flautað verður til leiks klukkan 17. Síðari viðureignin verður á heimavelli Vals annan laugardag.
Meistarar 2023 – í öðru sæti núna
Málaga Costa del Sol varð spænskur meistari vorið 2023 og situr um þessar mundir í öðru sæti efstu deildar, einu stigi á eftir BM Elche. Meistarar síðasta árs, Amara Bera Bera, eru í þriðja sæti með jafn mörg stig og Málaga Costa del Sol.
Vann ÍBV og varð meistari
Mikil reynsla er í liði Málaga Costa del Sol sem vann Evrópubikarkeppnina vorið 2021 og hafnaði í öðru sæti árið eftir. Á leið sinni að gullinu vorið 2021 lagði Málaga Costa del Sol lið ÍBV í 16-liða úrslitum. Báðir leikir fóru fram á Spáni.
Lið Málaga Costa del Sol er skipað landsliðskonum frá Spáni og Portúgal sem tóku þátt í Evróukeppni landsliða í síðasta mánuði.
Valur án þriggja ytra
Skarð er fyrir skildi hjá Valsliðinu. Þrjár öflugar konur taka ekki þátt í leiknum ytra. Elísa Elíasdóttir er í prófum í HR og komst ekki með út. Lilja Ágústsdóttir hefur ekki jafnað sig af ökklameiðslum sem hún varð fyrir í leik með landsliðinu í lok september. Sigríður Hauksdóttir komst ekki með vegna veikinda.
„Við notum daginn í dag í að koma okkur á áfangastað. Ferðalagið er langt en andinn og stemningin í hópnum er góður og stelpurnar spenntar fyrir komandi verkefnum,“ segir Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari Vals.
Erfitt verkefni
„Undirbúningur hefst svo af fullum krafti í fyrramálið. Við höfum séð nokkra leiki með Málaga Costa del Sol. Ljóst er að verkefnið verður erfitt og krefjandi,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari Vals hvergi banginn fremur en fyrri daginn.