- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Valsliðið keyrði yfir okkur“

Gunnar Gunnarsson, þjálfari Hauka. Mynd/Ívar
- Auglýsing -

„Við mættum ekki leiks í upphafi síðari hálfleiks með þeim afleiðingum að Valsliðið valtaði yfir okkur á fyrstu tíu til tólf mínútunum,“ sagði Gunnar Gunnarsson, þjálfari Hauka, eftir sex marka tap Hauka fyrir Val í Olísdeild kvenna í handknattleik í 5. umferð deildarinnar í Origohöllinni í dag.


„Valsliðið keyrði yfir okkur með seinni bylgju mörkum og hraðaupphlaupum. Við náðum að hlaupa til baka en tókum ekkert á móti þeim. Valur er með hörkugott lið og hefur leikið þann leik áður að koma af krafti inn í síðari hálfleikinn og ganga frá mótherjanum,“ sagði Gunnar og rifjaði upp síðari hálfleik í viðureign Vals og Stjörnunnar á dögum þegar Valur vann síðari hálfleik, 18:8, eftir jafnan fyrri hálfleik.


„Við misstum Rakel Sigurðardóttur út meidda. Fyrir vikið mæddi ennþá meira á Elínu Klöru og Söru [Odden]. Því miður þá fór þetta svona. Ég vonaðist eftir meiru að loknum fyrri hálfleik þegar við lékum vel. En til þess að vinna Val þá verðum við að eiga toppleik í sextíu mínútur.

Takturinn fór úr leik okkar

Takturinn fór úr leik okkar með slæmri byrjun í síðari hálfleik. Við verðum að líta á björtu hliðarnar þrátt fyrir þetta. Margar ungar stelpur fengu tækifæri. Þær stóðu sig vel og eiga bara eftir að verða betri,“ sagði Gunnar og minnti á að það væri ekki tími til þess að láta þetta tap slá sig út af laginu. Mikið væri um að vera á næstunni.


„Við förum norður á Akureyri á miðvikudaginn og mætum Íslandsmeisturunum. Síðan eigum við ÍBV á laugardaginn á heimavelli. Við verðum að safna kröftum,“ sagði Gunnar Gunnarsson, þjálfari Hauka í samtali við handbolta.is í dag.

Fékk högg á handarbakið

Eins og kom fram að framan í máli fór Rakel Sigurðardóttir meidd af leikvelli. Hún fékk þungt högg á handarbakið. Gunnar sagði við handbolta.is ekki ljóst hversu alvarlegt þetta hafi verið.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -