- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Valsmenn eru komnir til Benidorm – búa sig undir frábrugðinn andstæðing

Snorri Steinn Guðjónsson og Róbert Aron Hotsert bera saman bækur sínar. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Íslandsmeistarar Vals nýttu sér beint flug til Spánar á laugardaginn og voru komnir inn á hótel á Benidorm á laugardagskvöld. Í gær var æft í keppnishöllinni og fyrir dyrum stendur önnur æfing í kvöld áður en tekist verður á við lið TM Benidorm í Palau d´Esports lÍlla de Benidorm í annarri umferð B-riðils Evrópudeildarinnar í handknattleik annað kvöld. Flautað verður til leiks klukkan 19.45.

Velgdu Flensburg undir uggum

Leikmenn TM Benidorm veittu þýska liðinu Flensburg harða mótspyrnu í Flens-Arena á síðasta þriðjudag á sama tíma og Valur vann ungverska liðið FTC, 43:39, í Origohöllinni. Flensburg, með Teit Örn Einarsson innanborðs, tókst að vinna með fimm marka mun, 35:30, eftir að hafa verið þremur mörkum undir, 19:16, í hálfleik. Hörð mótspyrna sem leikmenn TM Benidorm sýndu í Þýskalandi undirstrikar að liðið er öflugt þótt það sé um þessar mundir í 7. sæti spænsku 1. deildarinnar.

Samvinna Þorgils Jóns Svölu Baldurssonar og Benedikts Gunnars Óskarsson í leiknum við FTC skilaði mörgum mörkum. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Öðruvísi andstæðingur

„Það er alltaf munur á að leika heima eða að heiman í Evrópukeppni. Auk þess sem töluverður munur er á leik Benidorm liðsins og FCT sem við mættum á síðasta þriðjudag á heimavelli,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson þjálfari Vals þegar handbolti.is sló á þráðinn til hans í dag.

TM Benidorm sat yfir í fyrstu umferð undankeppni Evrópudeildarinnar í haust. Leikmenn mættu galvaskir til leiks í annarri umferð og slógu út Ólaf Andrés Guðmundsson og samherja í GC Amicitia Zürich samanlagt, 64:58. Benidorm vann heimaleikinn sem var fyrr á dagskrá með 10 marka mun, 34:24. Ólafur og félagar höfðu betur í Sviss, 34:30. Það dugði skammt.

Sjö á sex og þrír línumenn

„TM Benidorm er ekki dæmigert spænskt handknattleikslið, ekki síst þegar litið er til sóknarleiksins. Liðið leikur oft sjö á sex og jafnvel frá upphafi til enda eins og það gerði gegn Flensburg. Þeir leika jafnvel með þrjá línumenn í einu og hafa fleiri afbrigði af sjö manna sóknarleik. Leikmenn liðsins svipaðir okkur á hæð en eru mjög kvikir og fljótir.

Þurfum toppleik

Þetta er bara mjög frábrugðinn andstæðingur og er eitt af því sem kryddar þátttökuna fyrir okkur að mæta sem fjölbreyttustum hópi liða. Við þurfum á svipaðri frammistöðu að halda og á síðasta þriðjudag í öllum okkar leikjum í keppninni til þess að ekki fari illa,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals.

Nítján leikmenn TM Benidorm sem skráðir eru til leiks eru af átta þjóðernum. Tíu er Spánverjar, tveir Serbar, tveir Argentíumenn. Aðrir eru frá Litáen, Frakkandi, Portúgal, Bosníu og Ítalíu. Sá síðarnefndi er reyndar fæddur í Buenos Aires í Argentínu.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -