Valsmenn sýndu allar sínar bestu hliðar í síðari hálfleik í dag þegar þeir unnu ÍBV, 43:31, í úrslitaleik Powerade-bikars karla í handknattleik í Laugardalshöll. Þeir léku við hvern sinn fingur jafnt í vörn sem sókn og skoruðu m.a. 26 mörk í síðari hálfleik. Leikmenn ÍBV, sem eru ýmsu vanir, fengu ekki við neitt ráðið.
Sýningstjórinn Benedikt Gunnar
Sýningstjóri Vals var Benedikt Gunnar Óskarsson sem skoraði 17 mörk í 19 skotum auk þess að eiga fimm stoðsendingar. Nær fullvíst má telja að önnur eins frammistaða í úrslitaleik bikarkeppninnar í karlaflokki hafi ekki áður sést. Framganga Benedikts Gunnars verður lengi í minnum höfð. Þess utan setti hann markamet í úrslitaleik í bikarkeppninni.
Markamet Vals
Til viðbótar við að Valsliðið setti markamet í úrslitaleik bikarkeppninnar. Fyrra met átti ÍR, 38 mörk, í sigurleik á HK 2005, 38:32.
Fyrsti titill Alexanders
Um leið þá er þetta fyrsti stóri titill sem Alexander Petersson vinnur með íslensku félagsliði en 21 ár er liðið síðan hann fór frá Íslandi til Þýskalands í atvinnumennsku.
Fyrsta tap ÍBV
Tapið var það fyrsta hjá ÍBV í úrslitaleik bikarkeppninnar. Áður hafði lið félagsins unnið alla úrslitaleiki sem það hafði unnið sér rétt í, síðast Stjörnuna, 26:24, fyrir fjórum árum.
Allt gekk upp
Allt gekk upp hjá Val á síðustu mínútum fyrri hálfleik og allan síðari hálfleikinn, vörn, markvarsla og sóknarleikur meðan vörn og markvarsla var ekki sem best Eyjamegin og erfitt að eiga við hraði Valsmanna var mikill.
Byrjuðu betur
Leikmenn ÍBV byrjuðu leikinn reyndar vel. Þeir voru þremur mörkum yfir, 12:9, eftir 18 mínútur. Valur svaraði með fimm mörkum í röð og komst yfir. Þrátt fyrir allt stefndi í spennandi síðari hálfleik en staðan að þeim fyrri loknum var 17:15, Valsmönnum í vil.
Leiðir skildu
Fljótlega í síðari hálfleik skildu leiðir og um miðjan hálfleikinn var ljóst að öll vötn féllu til Hlíðarenda. Forskot Vals var sex mörk og ekkert sem benti til þess að liðið ætlaði að lina tökin. Þvert á móti voru þau hert á næstu mínútum.
Þrettándi bikarmeistaratitill Vals í karlaflokki er í höfn.
Mörk Vals: Benedikt Gunnar Óskarsson 17/6, Ísak Gústafsson 7, Magnús Óli Magnússon 4, Agnar Smári Jónsson 4, Andri Finnsson 3, Allan Norðberg 3, Tjörvi Týr Gíslason 2, Úlfar Páll Monsi Þórðarson 1, Breki Hrafn Valdimarsson 1, Alexander Peterson 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 14/1, 33,3% – Arnar Þór Fylkisson 0.
Mörk ÍBV: Arnór Viðarsson 7, Daniel Esteves Vieira 7, Elmar Erlingsson 6/1, Kári Kristján Kristjánsson 3, Breki Þór Óðinsson 3, Sigtryggur Daði Rúnarsson 2, Andrés Marel Sigurðsson 1, Gabríel Martinez Róbertsson 1, Gauti Gunnarsson 1.
Varin skot: Petar Jokanovic 6 19,4% – Pavel Miskevich 2/1, 11,8%.
Öll tölfræði leiksins hjá HBStatz.