Valsmenn risu upp á afturlappirnar í kvöld og náðu að sýna á köflum hvað í þeim býr er þeir tóku á móti KA í upphafsleik 4. umferðar Olísdeildar karla. Hraður sóknarleikur og fínn varnarleikur færðu Val 11 marka sigur, 38:27, gegn lánlausum KA-mönnum. Valur var átta mörkum yfir í hálfleik, 20:12.
Valur hefur þar með unnið sinn fyrsta leik í Olísdeildinnni á leiktíðinni og það á sannfærandi hátt. KA er hinsvegar áfram neðst og án stiga. Róður liðsins er skiljanlega þungur í þessari stöðu, án stiga eftir fjóra leiki. Eins og áður er varnarleikurinn að vefjast fyrir KA-liðinu sem hefur fengið á sig 71 mark í síðustu tveimur leikjum. Af þessu leiðir að hraðaupphlaupin verða fá og stilla verður upp í nánast hverri sókn.
KA tekur næst á móti ÍR í KA-heimilinu fimmtudaginn í næstu viku. Valur sækir Íslandsmeistara FH heim á sama tíma.
KA hélt í við Val fyrstu 10 til 12 mínúturnar í kvöld. Eftir það skildu leiðir og Valur náði mest sex marka forskoti, 14:8, eftir rúmlega 20 mínútur þegar Halldór Stefán Haraldsson þjálfari KA tók annað leikhlé sitt. Átta mörkum munaði í hálfleik, 20:12.
KA tókst að minnka muninn í sex mörk eftir um 10 mínútur í síðari hálfleik. Nær komust norðanmenn ekki. Valur bætti í forskotið.
Miklu munar fyrir Valsmenn að endurheimta Magnús Óla Magnússon úr meiðslum, jafnt fyrir sóknarleikinn sem varnarleikinn.
Mörk Vals: Ísak Gústafsson 9/3, Andri Finnsson 6, Bjarni Selvindi 4, Magnús Óli Magnússon 4, Úlfar Páll Monsi Þórðarson 3, Viktor Sigurðsson 3, Miodrag Corsovic 3, Alexander Peterson 2, Allan Norðberg 2, Daníel Örn Guðmundsson 1, Kristófer Máni Jónasson 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 10, 30,3% – Arnar Þór Fylkisson 0.
Mörk Vals: Einar Rafn Eiðsson 7/6, Logi Gautason 5, Einar Birgir Stefánsson 4, Dagur Árni Heimisson 3/1, Patrekur Stefánsson 2, Bjarni Ófeigur Valdimarsson 2, Kamil Pedryc 2, Daði Jónsson 1, Ott Varik 1.
Varin skot: Bruno Bernat 7/1, 19,4% – Nicolai Horntvedt Kristensen 2, 18,2%.
Staðan og næstu leikir í Olísdeild karla.
Handbolti.is var á leikstað og fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.