Valur gerði jafntefli við HC Vardar, 34:34, í síðasta heimaleiknum í Evrópudeildinni í handknattleik karla í kvöld. Leikmenn Vals geta nagað sig í handarbökin yfir að hafa ekki unnið leikinn og þar með einn leik í keppninni því möguleikinn var fyrir hendi, allt fram á síðustu sekúndu. Vardar jafnaði metin þegar leiktíminn var úti, 34:34, eftir vítakast sem var dæmt á síðustu sekúndu fyrir að tefja töku aukakasts. Valur var marki yfir í hálfleik, 18:17.
Síðasti leikur Vals í Evrópudeildinni verður gegn Porto ytra eftir viku en ekkert verður af þeim úrslitaleik um annað sæti sem Valsmenn gerðu sér vonir um. Til þess hefðu þeir þurft að vinna viðureignina í kvöld.
Valur náði mest fimm marka forskoti eftir um 20 mínútur í fyrri hálfleik, 14:9. Fljótfærnisleg mistök komu Vardar aftur inn í leikinn og aðeins munaði marki eftir fyrri hálfleik, 18:17, eins og áður segir.
Framan af síðari hálfleik var nánast skorað í hverri sókn þannig að eftir um 40 mínútur var staðan jöfn, 24:24. Björgvin Páll Gústavsson átti nokkrar frábærar markvörslur sem gaf Valsliðinu möguleika í framhaldinu til þess að komast yfir. Rúmum 11 mínútum fyrir leikslok virtust Valsmenn vera að hrista Vardarmenn af sér og komnir með þriggja marka forskot, 29:26. Skömmu síðar var staðan, 30:28, en aftur voru mistökin af mörg og dýr. Vardarmenn jöfnuðu og komust yfir, 32:33.
Stefndi jafnvel í sigur þeirra. Valur svaraði með tveimur mörkum. Það síðara skoraði Úlfar Páll Monsi Þórðarson úr vítakasti 20 sekúndum fyrir leikslok. Andartaks einbeitingaleysi varð til þess að Vardar fékk vítakast á síðustu sekúndu og jafnaði metin, 34:34.
Evrópudeild karla “24 – riðlakeppni 32-liða – 5. umferð, úrslit, staðan
Mörk Vals: Úlfar Páll Monsi Þórðarson 11, Magnús Óli Magnússon 7, Ísak Gústafsson 5, Miodrag Corsovic 3, Bjarni Í Selvindi, 2, Viktor Sigurðsson 2, Allan Norðberg 2, Björgvin Páll Gústavsson 1,, Agnar Smári Jónsson 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 16, 32%.
Mörk Vardar: Goce Georgievski 5, Marko Srdanovoc 5, Achraf Margheli 5, Dmytor Horiha 4, Stefan Petric 4, Lars Kooij 3, Tomislav Hagurinovski 2, Mario Tankoski 2, Marija Nikolic 2, Hnasel Rodrigues 1, Mladen Krsmancoc 1.
Varin skot: Vasil Gogov 7, 18,4% – Marko Bogdanovski 0.
Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.