Valur varð í dag Coca Cola-bikarmeistari í handknattleik karla eftir sigur á Fram, 29:25, í úrslitaleik í Schenkerhöllinn á Ásvöllum. Þetta er í ellefta sinn sem Valur vinnur bikarkeppnina í karlaflokki og í fjórða skipti sem Valur vinnur Fram í úrslitum frá því að lið félaganna mættust í fyrsta sinn árið 1974.
Valsmenn fengu að vinna fyrir sigrinum í dag. Framarar byrjuðu með látum og skoruðu sex fyrstu mörkin. Komu flestum í opna skjöldu. Valsmenn unnu sig jafnt og þétt út úr þeirri stöðu og komust yfir, 11:10. Jafnt var í hálfleik, 12:12.
Fram náði þriggja marka forskoti í síðari hálfleik 16:13. Valur kom til baka með góðri markvörslu frá Björgvini Páli og öflugum varnarleik sem skilaði liðinu yfirhöndinni. Framarar voru aldrei langt undan með sinn þolinmóða sóknarleik og mikla baráttu í vörninni. Leikmenn Fram létu Íslandsmeistarana svo sannarlega hafa fyrir sigrinum. Þótt Valur næði fjögurra marka forskoti þá gafst Fram-liðið aldrei upp. Allt til síðustu sekúndu hélt það andstæðingi sínum við efnið.
Framarar eiga heiður skilið fyrir að berjast frá upphafi til enda þótt andstæðingurinn væri ekki árennilegur.
Valsliðið lauk í dag með þessum leik langri og strangri leikjatörn. Styrkleiki liðsins sýndi sig þegar á leið. Ljóst má vera að sigurleikirnir eiga eftir að verða mikið fleiri ef fram heldur sem horfir og titlarnir fleiri áður en mótslokum kemur næsta vor.
Mörk Vals: Tumi Steinn Rúnarsson 7, Vignir Stefánsson 6, Arnór Snær Óskarsson 4, Magnús Óli Magnússon 4, Benedikt Gunnar Óskarsson 3, Finnur Ingi Stefánsson 3, Einar Þorsteinn Ólafsson 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 18, 41,9%.
Mörk Fram: Vilhelm Poulsen 9, Kristófer Dagur Sigurðsson 5, Breki Dagsson 4, Stefán Darri Þórsson 4, Þorsteinn Gauti Hjálmarsson 2, Ólafur Jóhann Magnússon 1.
Varin skot: Lárus Helgi Ólafsson 11, 29,7%.