- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Valur bikarmeistari í níunda sinn – Stjarnan veitti harða mótspyrnu

Valur, Powerade-bikarmeistari í handknattleik kvenna 2024. Mynd/Ívar
- Auglýsing -

Valur er Powerade-bikarmeistari kvenna í handknattleik 2024 eftir sigur á Stjörnunni 25:22 í úrslitaleik í Laugardalshöll í dag. Þetta er í níunda sinn sem Valur vinnur bikarinn í kvennaflokki og í annað skiptið á þremur árum. Eins marks munur var á liðunum að loknum fyrri hálfleik, 11:10. Segja má að Valsliðið hafi verið heppið að fara með forskot, þótt það væri ekki nema eitt mark inn í hálfleikshléið.

Þvert á spár margra þá veitti Stjarnan liði Vals harða mótspyrnu í úrslitaleiknum. Allan fyrri hálfleikinn var munurinn ekki meira en eitt til tvö mörk. Stjarnan lék góð vörn og Darija Zecevic var öflug í markinu. Valsliðið náði aldrei takti í sóknarleik sínn og fékk fá hraðaupphlaup.

Fyrstu 10 mínútur síðari hálfleiks hélt Stjarnan áfram í við Valsliðið en upp úr því skildu aðeins leiðir. Munaði þar miklu um góða frammistöðu Hafdísar Renötudóttur markvarðar Vals sem hvað eftir annað lagði stein í götu Stjörnuliðsins. Valur náði mest fimm marka forskoti, 21:15, þegar átta mínútur voru eftir. Flest stefndi í öruggan sigur. Leikmenn Stjörnunnar voru á öðru máli. Þær náðu góðum endaspretti, minnkuðu muninn í tvö mörk, 23:21. Nær komust þær ekki.

Sá mikli styrkleikamunur sem talinn er vera á liðunum skein aldrei almennilega í gegn. Annað með tug leikmanna sem leikið hafa með A-landsliðinu en hitt með tvær. Val hefur gengið allt í hag í vetur meðan tímabilið hefur lengi verið brekka hjá Stjörnunni.

Elín Rósa Magnúsdóttir, leikmaður Vals, var í leikslok verðskulduð valin mikilvægasti leikmaður úrslitakeppninnar. Hún lék einnig afar vel í undanúrslitaleiknum.

Mörk Vals: Þórey Anna Ásgeirsdóttir 5/5, Elín Rósa Magnúsdóttir 5, Thea Imani Sturludóttir 5, Hildigunnur Einarsdóttir 3, Morgan Marie Þorkelsdóttir 3, Sigríður Hauksdóttir 2, Lilja Ágústsdóttir 1, Auður Ester Gestsdóttir 1.
Varin skot: Hafdís Renötudóttir 13/2, 48,1% – Sara Sif Helgadóttir 4, 33,3%.

Mörk Stjörnunnar: Eva Björk Davíðsdóttir 10/2, Helena Rut Örvarsdóttir 3, Vigdís Arna Hjartardóttir 3, Stefanía Theodórsdóttir 2, Anna Lára Davíðsdóttir 1, Hanna Guðrún Hauksdóttir 1, Elísabet Gunnarsdóttir 1, Anna Karen Hansdóttir 1.
Varin skot: Darija Zecevic 12, 34,3% – Elísabet Millý Elíasardóttir 1/1, 33,3%.

Öll tölfræði leiksins hjá HBStatz.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -