- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Valur er Evrópubikarmeistar!

Valur Evrópubikarmeistari í handknattleik kvenna 2025. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -


Valur er Evrópubikarmeistari kvenna í handknattleik 2025 eftir sigur á BM Porriño, 25:24, í síðari úrslitaleik liðanna í N1-höllinni á Hlíðarenda í dag. Þetta er í fyrsta sinn sem íslenskt kvennalið vinnur Evrópubikarkeppni kvenna í handknattleik og því um hátíðsdag að ræða fyrir handknattleiksfólk á Íslandi. Samanlagt vann Valur með eins marks mun í leikjunum tveimur, 54:53. Tæpara gat það ekki verið.


Staðan að loknum fyrri hálfleik var 12:9, Val í vil að viðstöddum um 1.500 áhorfendur í stórkostlegri stemningu í N1-höllinni á Hlíðarenda. Evópubikar fór í fyrsta sinn á loft á Íslandi.
Valur vann níu leiki af 12 í keppninni og gerði þrjú jafntefli.


Um leið er þetta í annað sinn sem Valur vinnur Evrópubikarkeppnina því karlalið félagsins vann á síðasta ári.
Valur var sterkara liðið í 52 mínútur í leiknum í dag. Eftir að hafa lent undir, 4:7, eftir 13 mínútur sneri Valsliðið við blaðinu. Varnarleikurinn var stórkostlegur og Porriño-liðið skoraði aðeins tvö mörk það sem eftir var hálfleiksins. Valsiðið tók öll völd.


Í síðari hálfleik hélt Valur áfram að herða tökin og auka forskot sitt. Allt virtist leika í lyndi þegar níu mínútur voru eftir. Forskot Vals var sjö mörk, 23:16. Eftir leikhlé sem Porriño tók í þessari stöðu færði liðið sig enn framar á völlinn og lék nánast maður á mann til loka. Þetta sló Valsliðið aðeins út af laginu og hratt minnkaði forskotið. Axarsköft litu dagsins ljós í sóknarleiknum.


Undir lokin var spennan gríðarleg eftir að Porriño minnkað muninn í eitt mark, 25:24, með marki Barros Munos 19 sekúndum fyrir leikslok. Á þeim sekúndum sem eftir voru tókst Valsliðinu að halda sjó. Fögnuðurinn var skiljanlega fölskvalaus í leikslok og um 1.500 áhorfendur sungu og dönsuðu í stúkunni þegar lokaflautið gall. Geðshræringasvipur og síðan gleði skein úr andlitum leikmanna Vals sem skrifuðu svo sannarlega nýjan kafla í íslenska íþróttasögu.


Mörk Vals: Þórey Anna Ásgeirsdóttir 6, Lilja Ágústsdóttir 4, Elísa Elíasdóttir 4, Elín Rósa Magnúsdóttir 4, Thea Imani Sturludóttir 3, Lovísa Thompson 3, Ásdís Þóra Ágústsdóttir 1,
Varin skot: Hafdís Renötudóttir 10/1, 29,4%.

Mörk BM Porriño: Paulina Pérez Buforn 6, Maider Barros Muñoz 4, Ekaterina Zhukova 3, Carolina Bono 3, Malena Valles Becerra 3, Aitana Santome Santos 2, Sarai Samartin Lago 2, Maddi Bengoetxea Erriondo 1.
Varin skot: Ana Belén Palomino Delgado 9, 32,1% – Fátima Ayelen Rosalez Cabrera 1, 14,2%.

Evrópubikarkeppni kvenna – fréttasíða.

Handbolti.is var á Hlíðarenda og fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -