- Auglýsing -
- Auglýsing -

Valur Íslandsmeistari í 24. sinn

Íslandsmeistarar Vals í handknattleik karla 2022. Mynd/Ívar
- Auglýsing -

Valur tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik karla í dag með því að leggja ÍBV, 31:30, í fjórða úrslitaleik liðanna og vinna þar með einvígi liðanna með þremur vinningum gegn einum. Annað árið í röð er Valur Íslandsmeistari á sannfærandi hátt. Þetta var 24. Íslandsmeistaratitill Vals í karlaflokki og er félagið það sigursælasta frá upphafi.


Valsmenn léku af miklum krafti í upphafi og komst snemma yfir, 5:2, þegar sóknarleikur ÍBV hikstaði. Rúnar Kárason kom inn á og hleypti krafti í sóknarleik ÍBV. Engu að síður héldu Valsmenn áfram að sækja hratt í bakið á ÍBV, jafnvel eftir að heimamenn skoruðu. Fjögurra marka munur sást, 9:5, 11:7 og 12:9, áður en ÍBV tókst að koma til baka og ná yfirhöndinni, 14:12.


Fyrstu 13 mínútur síðari hálfleiks voru í járnum. ÍBV jafnaði metin oft en komst aldrei yfir. Valur nýtti sér vel að vera manni fleiri um miðjan hálfleikinn og komst þremur mörkum yfir, 24:21. Enn kom ÍBV liðið til baka og jafnaði, 27:27.


Valur svaraði með tveimur mörkum en ÍBV tókst aldrei að jafna metin eftir það.
Valur er verðskuldaður Íslandsmeistari eftir frábært keppnistímabil. Liðið vann alla titla sem í boði voru hér heima og náði langt í Evrópukeppni. Afar þjálfað lið með skemmtilegri blöndu yngri og eldri leikmanna sem eiga eftir að láta mikið að sér kveða næstu ár. Sigurinnn í þriðja leiknum, þegar liðið lenti fjórum mörkum undir síðla í leiknum en tókst að snúa við taflinu var afar mikilvægur og undirstrikaði styrk Valsliðsins.


Von vaknaði hjá ÍBV þegar hálf mínúta var eftir og Petar Jokanovic varði vítakast. Staðan var 30:30. Valsmenn náðu frákastinu og Arnór Snær Óskarsson vann annað vítakast og skoraði úr því sjálfur 31. markið og sigurmarkið.


Eyjamenn sóttu í sig veðrið þegar á úrslitakeppnina leið. Víst er að þeir voru ekki langt frá því að ná í það minnsta í oddaleik. Ef undan er skilinn fyrri hálfleikur í fyrsta leiknum þá var munurinn á liðunum minni en fyrirfram var talið.


Eins og hjá Val þá er ÍBV-liðið skipað stórum hópi yngri leikmanna sem hafa blómstrað í síðustu leikjum. Framtíðin er björt og svo kann að fara að liðin tvö standi í sömu sporum eftir ár, þ.e. að leika á ný til úrslita.

Stiven Tobar Valencia, Val, var valinn mikilvægasti leikmaður úrslitakeppninnar.


Mörk ÍBV: Rúnar Kárason 7, Elmar Erlingsson 5/4, Ásgeir Snær Vignisson 4, Dánjal Ragnarsson 4, Theodór Sigurbjörnsson 4, Sveinn Jose Rivera 2, Arnór Viðarsson 1, Róbert Sigurðarson 1, Friðrik Hólm Jónsson 1, Dagur Arnarsson 1.
Varin skot: Björn Viðar Björnsson 10, 40% – Petar Jokanovic 7/2, 33,3%.

Mörk Vals: Róbert Aron Hostert 6, Stiven Tobar Valencia 6, Magnús Óli Magnússon 4, Finnur Ingi Stefánsson 3, Arnór Snær Óskarsson 2, Benedikt Gunnar Óskarsson 2, Björgvin Páll Gústavsson 2, Tjörvi Týr Gíslason 2, Þorgils Jón Svölu Baldursson 2, Vignir Stefánsson 1, Einar Þorsteinn Ólafsson 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 15, 33,3%.

Öll tölfræði leiksins er hjá HBStatz.

Handbolti.is var í Vestmannaeyjum og fylgdist með leiknum í textafærslu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -