Í málsskotsnefnd sem Handknattleikssamband Íslands setti laggirnar á dögunum eiga þrír karlmenn sæti. „Málskotsnefnd er ætlað að hafa eftirlit með handknattleiksleikjum sem fram fara á Íslandi og getur á grundvelli sérstakra heimilda skotið málum til aganefndar HSÍ í aga- og/eða kærumálum,“ segir í 3. grein í starfsreglum nefndarinnar sem stjórn HSÍ samþykkti 3. september.
Í nefndinni, sem skipuð er af stjórn HSÍ, sitja Alfreð Örn Finnsson, Andri Sigþórsson og Júlíus Jónasson.
Í 1. grein starfsreglna nefndarinnar segir að í hún sé skipuð þremur fulltrúum og þremur til vara. „Skal að minnsta kosti einn þeirra vera reynslumikill fyrrverandi handknattleiksdómari og einn vera löglærður,” segir orðrétt.
Andri er löglærður aðalmaður nefndarinnar. Júlíus er fyrrverandi landsliðs- og atvinnumaður í handknattleik og reynslumikill sem slíkur. Minna hefur farið fyrir Júlíusi í dómgæslu.
Alfreð var um árabil þjálfari hér á landi og í Noregi en hefur í síðari tíð einbeitt sér að mestu að prestsskap.
Ekki fékkst svar þegar eftir því var leitað í dag hver væri fulltrúi reynslumikilla fyrrverandi dómara í þessari þriggja manna nefnd.