„Ég var búinn undir það eftir erfiðan dag í gær að leikurinn í dag gæti orðið þungur framan af. Staðan sem við vorum komnir í eftir föstudaginn var mikið högg fyrir okkur. Á sama tíma var ég ekki ánægður með leikinn framan af. Þeir voru hægir en við ennþá hægari. Eftir leikhléið sem ég tók fannst mér ganga betur,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari í handknattleik karla í samtali við handbolta.is í Zagreb Arena eftir níu marka sigur íslenska landsliðsins á Argentínu í síðasta leik liðanna í milliriðlakeppni HM í handknattleik í dag.
„Mér fannst mikilvægt að ná góðu forskoti fyrir lok fyrri hálfleiks. Við vorum síðan bara nokkrar mínútur í síðari hálfleik að ganga frá leiknum. Ég vil hrósa strákunum hvernig þeir mættu til leiks í síðari hálfleik. Ekki síst Janus Daði sem fékk skammir frá mér í hálfleik og svaraði því vel. Þegar á leið þá fór ég að rúlla á öllu liðinu,“ sagði Snorri Steinn ennfremur.
Lengra viðtal við Snorra Stein er á myndskeiði hér fyrir ofan.