„Þetta var ekki boðlegt af okkar hálfu,” sagði Halldór Örn Tryggvason, þjálfari Þórs, eftir að leikmenn hans voru kjöldregnir af Framliðinu í Safamýri í kvöld í viðureign þeirra í Olísdeild karla. Þór tapaði með 12 marka mun, 31:19.
„Við voru í vandræðum með sóknarleik okkar gegn Haukum á föstudaginn þegar þeir léku 5/1 vörn gegn okkur. Fram lék hinsvegar 6/0 vörn eins og við mátti búast og á meðan við héldum skipulaginu gekk þokkalega en eftir að menn færðu sig jafnt og þétt út af brautinni þá datt allur botn úr. Því fór sem fór,“ sagði Halldór Örn sem var skiljanlega afar vonsvikinn yfir frammistöðunni.
„Færanýtingin var hræðileg. Menn nýttu ekki sex og sjö metra færi. Einbeitingaleysi var algjört og ljóst að menn mættu alls ekki klárir í slaginn,“ sagði Halldór og tók undir að eftir að Þórsliðið náði í líflínu með sigrinum á Val fyrir rúmri viku þá hafi ekki tekist að sýna hungur til að fylgja því eftir.
„Við flugum kannski nokkuð hátt eftir Valsleikinn. Sennilega erum við enn að brotlenda. Ég veit ekki hversu langt menn ætla að ganga í þeim efnum áður en þeir spyrna sér frá botninum. Síðast töpuðum við með nítján marka mun og tólf í kvöld. Við eigum Selfoss heima á sunnudaginn. Ég ætla rétt að vona að menn girði sig í brók og skili almennilegum leik á móti Selfossi,“ sagði Halldór Örn Tryggvason, þjálfari Þórs í samtali við handbolta.is í Framhúsinu í kvöld.