Eftir viðureign Þýskalands og Portúgal á Evrópumótinu í handknattleik karla í kvöld gagnrýndu Paulo Pereira þjálfari og leikmenn landsliðs Portúgal dómara leiksins fyrir að hafa ekki nýtt myndbandsdómgæslu, stundum nefnt VAR, til þess að dæma ógilt síðasta mark þýska landsliðsins í leiknum. Þjóðverjar unnu 32:30.
Að gefnu tilefni sendi Handknattleikssamband Evrópu frá sér tilkynningu í kvöld þar sem viðurkennt er að tveir leikmenn þýska landsliðsins hafi verið á röngum vallarhelmingi þegar þýska liðið hóf sókn á miðjum vellinum fimm sekúndum fyrir leikslok. Hins vegar áréttar EHF að reglurnar seu mjög skýrar hvenær dómarar mega nota VAR-tæknina og hvenær ekki. Dómurum er t.d. ekki heimilt að líta í VAR til að athuga hvort tekin hafi verið röng miðja, hvenær sem er leiks.
VAR-tæknina má aðeins nýta ef grunur vaknar um að refsa þurfi leikmanni, dæma verði vítakast eða ef vafi leikur á um að boltinn sé dæmdur af liði.
Sé tekin röng miðja, eins og í þessu tilfelli, leiðir það ekki til að lið sé svipt rétti til sóknar heldur skal taka miðjuna á nýjan leik.
Ljóst er að landsliðsþjálfari Portúgals og leikmenn hans þekkja ekki VAR-reglurnar.


