- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Var ekki tilbúin að leika aftur í fyrstu deild

Elín Jóna Þorsteinsdóttir, landsliðsmarkvörður, er ein þeirra sem hefur fært sig um set frá síðasta keppnistímabili. Mynd/HSÍ
- Auglýsing -

„Ég var ekki tilbúin að leika í fyrstu deild eftir að hafa fengið reynslu af því að leika í úrvalsdeildinni. Ringkøbing getur boðið mér það að leika áfram í úrvalsdeildinni. Þess vegna ákvað ég að breyta til,“ sagði Elín Jóna Þorsteinsdóttir, landsliðsmarkvörður í handknattleik í samtali við handbolta.is í morgun eftir að tilkynnt var að hún hafi samið við verðandi úrvalsdeildarlið Ringkøbing Håndbold í Danmörku.


Elín Jóna hefur undanfarin þrjú ár verið markvörður Vendsyssel sem lék í vetur í úrvalsdeildinni en féll því miður á dögunum niður í 1. deild. Ringkøbing Håndbold vann hinsvegar 1. deild nokkuð örugglega á dögunum og endurheimtir nú sæti sitt í deildinni eftir tveggja ára fjarveru.

Stórt stökk milli deilda

„Það er vel látið af félaginu, umgjörðinni og þjálfaranum, Jesper Holmris. Þetta er lið sem er að fara upp úr fyrstu deildinni. Stökkið er stórt á milli úrvalsdeildar og fyrstu deildar. Ég þekki það af reynslunni með Vendsyssel í vetur. Markmið Ringkøbing Håndbold verður að að sjálfsögðu að halda sér upp í úrvalsdeildinni sem þýðir að við verðum að keppa við þau lið sem verða í neðri hluta deildarinnar. Engu að síður verður það markmið okkar að vinna alla leiki,“ sagði Elín Jóna sem flytur frá Álaborg til Ringkøbing á vesturströnd Jótlands í júlí ásamt kærasta sínum.


„Ég hef áður leikið með einum leikmanni úr Ringkøbing-liðinu annars þekki ég ekki til þeirra sem skipa liðið,“ sagði Elín Jóna sem eðlilega er full eftirvæntingar að færa sig um set. Fyrsta skipulagða æfing liðsins verður 19. júlí en keppni í dönsku úrvalsdeildinni hefst væntanlega um mánaðarmótin ágúst – september.

Hlakkar til stemningarinnar

„Það er heiður að fá að leika áfram í úrvalsdeildinni og finna það að maður getur haldið í við þá leikmenn sem þar leika. Ég er ánægð og þakklát með að fá tækifæri til þess að halda áfram í úrvalsdeildinni. Ég hlakka til að leika í úrvalsdeildinni fyrir framan áhorfendur og upplifa alla þá stemningu sem því fylgir og við fórum á mis við í vetur vegna kórónuveirunnar,“ sagði Elín Jóna Þorsteinsdóttir, landsliðsmarkvörður og verðandi markvörður danska úrvalsdeildarliðsins Ringkøbing Håndbold.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -