Sveini Jóhannssyni og samherjum í SönderjyskE var kippt niður á jörðina í kvöld. Eftir magnaðan sigur á Danmerkurmeisturum Aalborg Håndbold í síðustu viku þá máttu Sveinn og félagar bíta í súra eplið í kvöld er þeir töpuðu fyrir Lemvig-Thyborøn Håndbold, 30:27, á heimavelli Lemvig í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik.
Sveinn skoraði eitt mark en var fastur fyrir í vörninni og var m.a. vísað af leikvelli í tvígang.
Ágúst Elí Björgvinsson og félagar í KIF Kolding fengu slæman skell í heimsókn sinni til hins sameinaða liðs Skanderborg Aarhus Håndbold í kvöld, lokatölur 34:22. Tónninn var sleginn strax í fyrri hálfleik þegar heimamenn tóku öll völd á leikvellinum og voru sjö mörkum yfir í hálfleik, 14:7.
Ágúst Elí stóð annan hálfleikinn í marki Kolding og varði tvö skot. Kolding hefur tvö stig eftir tvo leiki.
Þriðji Íslendingurinn sem lék með liði sínu í kvöld í danska handknattleiknum, Steinunn Hansdóttir, tapaði einnig. Lið hennar Skanderborg Håndbold steinlá fyrir Danmerkurmeisturum Odense Håndbold, 31:15, á heimavelli. Steinunni skoraði eitt mark í tveimur skotum og var einu sinni vísað af leikvelli.
Skanderborg Håndbold er án stiga eftir þrjá leiki.