„Varnarleikurinn var ekki góður hjá okkur í kvöld, eins og við höfðum verið ánægðir með hann í nokkrum leikjum á undan. Við gerðum breytingar til þess að komast betur út í skytturnar og það er alveg ljóst að þær skiluðu ekki árangri,“ sagði Halldór Stefán Haraldsson þjálfari KA eftir sjö marka tap liðsins fyrir Haukum, 38:31, í 13. umferð Olísdeild karla í handknattleik á Ásvöllum í kvöld.
„Því miður þá vinnum við ekki Hauka á útivelli með svona varnarleik,“ sagði Halldór Stefán en KA-liðið fékk á sig 24 mörk í fyrri hálfleik. Eins og gefur að skilja þá var markvarslan í samræmi við varnarleikinn.
Skárri síðari hálfleikur
Eftir að hafa verið átta mörkum undir í hálfleik þá tók KA að minnka muninn í þrjú mörk í síðari hálfleik og átti þess kost að koma forskoti Hauka enn neðar en það tókst ekki. „Við unnum síðari hálfleikinn með einu marki. Það er þó betra en stundum hefur gerst þegar við höfum lent langt undir. Engu að síður þá er ljóst að þjálfarinn getur ekki verið ánægður með það,“ sagði Halldór Stefán ennfremur.
Tveir heimaleikir fyrir jól
KA er í níunda sæti, stigi á eftir Gróttu og fjórum frá ÍBV og Stjörnunni sem eru í sjötta og sjöunda sæti. Halldór Stefán segir stöðuna einfaldlega verið til að vinna úr. Mikið sé eftir af Olísdeildinni. Framundan eru tveir leikir fyrir jólaleyfi, báðir gegn Aftureldingu í KA-heimilinu. Annar leikurinn er liður í Olísdeildinni en hinn í átta liða úrslitum Poweradebikarsins.
„Við erum með gott sjálfstraust í heimaleikjunum svo það er bara jákvætt framundan. Það verða tvö hörkueinvígi hjá okkur við Aftureldingu, engin spurning,“ sagði Halldór Stefán Haraldsson þjálfari KA hvergi banginn að vanda.
Ánægður með sóknarleikinn fyrir utan kafla í síðari hálfleik