Aftur á ný hefur kórónuveirunni slegið niður í herbúðir þýska handknattleiksliðsins MT Melsungen, þar sem Guðmundur Þórður Guðmundsson landsliðsþjálfari, er í þjálfarastól og Arnar Freyr Arnarsson, landsliðsmaður, leikur með.
Í tilkynningu sem félagið sendi frá sér í kvöld segir að við reglubundna skimun í morgun hafi komið í ljós að þrír leikmenn liðsins reyndust jákvæðir. Þess vegna hefur viðureign Melsungen og Stuttgart, sem fram átti að fara annað kvöld, verið frestað. Óvíst er hvort viðureign Melsungen og Ludwigshafen sem áætluð er á öðrum degi jóla verði háð á tilsettum tíma.
Stór hluti nóvembermánaðar fór í glímuna við kórónuveiruna hjá liðsmönnum Melsungen eftir að leikmaður smitaðist við þátttöku í tveimur landsleikjum snemma í nóvember.
Félagið greinir frá því að hinir smituðu séu Silvio Heinevetter, Timo Kastening og Yves Kunkel. Allir í leikmannahópnum eru farnir í sóttkví. Tveir fyrstnefndu er í þýska landsliðshópnum sem Alfreð Gíslason, landsliðsþjálfari, valdi í morgun til þátttöku á HM í Egyptalandi.