- Auglýsing -
- Auglýsing -

Veit ekki með leikformið en öxlin er góð

Elvar Örn Jónsson er sagður á leiðinni til Magdeburg. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Ég veit ekki með leikformið en öxlin er orðin góð. Ég er ennþá að koma mér í leikform og ná takti við leikinn og samherjana,“ sagði Elvar Örn Jónsson landsliðsmaður í handknattleik og leikmaður MT Melsungen í Þýskalandi þegar handbolti.is hitti hann að máli, rétt fyrir fyrstu æfingu íslenska landsliðsins vegna landsleiksins við Ísraelsemenn í undankeppni EM sem fram fer í kvöld á Ásvöllum og hefst kl. 19.45.

Elvar Örn meiddist á öxl í landsleik við Austurríki í apríl og er nýlega byrjaður að leika með félagsliði sínu á nýjan leik. Hefur verið með í tveimur síðustu leikjum og gengið vel.

Er hvergi banginn

„Ég hef fengið mikinn leiktíma sem hefur orðið til þess að aðstoða mig við að komast í takt við leikinn aftur,“ sagði Elvar Örn sem er hvergi banginn við að taka þátt í tveimur landsleikjum á skömmum tíma svo skömmu eftir að hafa fengið grænt ljós á að leika aftur.

Elvar Örn er 25 ára gamall Selfyssingur sem um þessar mundir leikur með þýska 1. deildarliðinu MT Melsungen. Hann kom til félagsins sumar 2021 eftir tveggja ára veru hjá Skjern í Danmörku.
Elvar Örn hóf að æfa handknattleik á Selfoss á barnsaldri og lék með liðum félagsins upp í meistaraflokk og var burðarás í Íslandsmeistaraliði félagsins vorið 2019.
Elvar Örn lék sinn fyrsta landsleik gegn Noregi í Sotra Arena 5. apríl 2018. Hann var valinn í æfingahóp fyrir EM 2018 en meiðsli komu í veg fyrir þátttöku hans á mótinu. Elvar Örn stimplaði sig inn í landsliðið af krafti árið eftir, á  HM í Þýskalandi og Danmörku 2019 en það var hans fyrsta stórmót með A-landsliðinu. Alls eru A-landsleikirnir orðnir 52 og mörkin  133.
Elvar Örn var valinn besti leikmaður Olís-deildarinnar 2018 og 2019 auk þess að vera útnefndur verðmætasti leikmaður úrslitakeppni Olís-deildarinnar 2019.

„Leikirnir koma á besta tíma fyrir mig. Ég er ánægður að fá sem flesta leiki til að komast í gang. Frábært að fá tækifæri með landsliðinu í mikilvægum leikjum í upphafi nýrrar keppni,“ sagði Elvar Örn.


„Það er alltaf eftirvænting í manni fyrir landsleiki. Ég hef látið mig hlakka til að koma heima og spila fyrir landsliðið með strákunum sem maður hefur spilað með síðustu árin. Það er ekkert betra en að leika með íslenska landsliðinu.“

Verðum að leika af krafti

Elvar Örn segir Ísraelsmennina vera seiga. Þeir hafi náð ágætum úrslitum í síðustu undankeppni þegar þeir voru líka með íslenska landsliðinu í riðli. M.a. hafi Ísraelsmenn gert Litáum skráveifu.

„Við verðum að fara af alvöru og krafti inn í leikinn. Annars getum við lent í veseni. Þeir mæta hingað til þess að berja á okkur. Við þurfum að vera tilbúnir til að taka á móti og leika okkar leik,“ sagði Elvar Örn Jónsson landsliðsmaður í handknattleik og leikmaður MT Melsungen í Þýskalandi.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -